Ársfundur NASAA og samtaka íslenskra skíðasvæða

Fyrir skömmu var haldinn á Sauðárkróki ársfundur NASAA sem eru samtök skíðasvæða á Íslandi og í Skotlandi. Þetta er í annað skipti sem ársfundur samtakanna er haldinn hér á landi. Við þetta tækifæri var jafnframt haldinn fundur Samtaka skíðasvæða á Íslandi og tók Magnús Árnason, framkvæmdastjóri skíðasvæða höfuðborgarsvæðsins við formennsku við það tækifæri. Hann segir bæði mikils virði fyrir skíðasvæðin á Íslandi að hafa með sér gott samstarf og ekki síður ávinning af samstarfinu við Skotana.

„Þó í hugum fólks sé Skotland ekki fyrsta landið sem kemur upp þegar rætt er um skíðasvæði þá eru mörg slík þar í landi. Og þær aðstæður sem þeir búa við eru á margan hátt mjög hliðstæðar því sem við þekkjum hér heima," segir Magnús.
Á ársfundinum á Sauðárkróki voru einnig gestir skíðasvæði í Svartaskógi í Þýskalandi og þannig segir Magnús að reynt sé að nýta þennan vettvang til þekkingarmiðlunar. Á ársfundi samtakanna hafa einnig komið fulltrúar framleiðenda lyftubúnaðar, miðasölukerfa og annars búnaðar sem nútíma skíðasvæði þurfa á að halda.
„Aukin tengsl eru af hinu góða og við nýtum þetta til að skoða sameiginlega tækni- og rekstrarlausnir, miðla þekkingu á milli og ræða þau atriði sem brenna á okkur hverju sinni.  Í Skotlandi eru veðuraðstæður mjög áþekkar okkar, þeir glíma við rokið, hitasveiflur og fleira sem við þekkjum vel. Nær öll svæðin í Skotlandi eru reyndar einkarekin en að öðru leyti eru þau mjög áþekk okkar svæðum. Skotarnir voru áður í samtökum með skíðasvæðum í Frakklandi en töldu sig eiga mun meira sameiginlegt með okkur Íslendingum og þannig urðu  NASAA samtökin til," segir Magnús en á fundinum á Sauðárkróki var rætt um að starfsmenn geti farið milli svæða í löndunum og kynnt sér sér þau.

 Metnaður á skíðasvæðunum
„Staða íslenskra skíðasvæða er að mínu mati nokkuð góð. Það er verið að setja upp snjóframleiðslu á nokkrum svæðum og mörg svæði komin nú þegar með ágæt kerfi. Reynslan af snjóframleiðslunni er á öllum stöðum mjög góð. Nægir þar að benda á að hvað fjölda opnunardaga varðar þá er lakasti veturinn í Hlíðarfjalli eftir að framleiðslukerfið kom betri en sá besti fyrir tíma snjóframleiðslunnar. Það sem hins vegar er aðkallandi er að snjóframleiðslu verði komið upp í Bláfjöllum til að treysta grundvöll þess svæðis. Þetta atriði snertir mjög hag annarra skíðasvæða því ef við missum nýliðunina í skíðamennskunni niður á höfuðborgarsvæðinu þá kemur hnignun í skíðamennskuna almennt á landinu. Þetta hefur því áhrif og er hagsmunamál allra svæðanna," segir Magnús.
Ellefu skíðasvæði eru á landinu og segir Magnús mikinn metnað ríkjandi að gera sífellt betur. „Allir eru að horfa til frekari uppbyggingu, sama hvert horft er. Menn eru að horfa fram í tímann og vilja ná lengra. Enda er þetta sport fjölskyldufólksins og raunar ekki dýrt sport samanborið við margt annað," segir Magnús.

Ívar Sigmundsson heiðraður
Á ársfundi Samtaka skíðasvæða var Ívar Sigmundsson, fyrrverandi forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli, gerður að heiðursfélaga Skíðasvæða á Íslandi en um leið fyrsti heiðursfélagi NASAA. Ívar er vel að þessu kominn enda einn af helstu frumkvöðlum á þessu sviði undanfarna áratugi og ötull talsmaður uppbyggingar skíðasvæða landsins.