Beth Fox fær Cobb Partnership verðlaunin

Cobb verðlaunin afhent. Frá vinstri: Luis Arreaga, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Beth Fox og C…
Cobb verðlaunin afhent. Frá vinstri: Luis Arreaga, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Beth Fox og Charles Cobb, fyrrum sendiherrra á Íslandi.

Beth Fox sem kennt hefur á námskeiðum fyrir fatlaða í Hlíðarfjalli undanfarin ár fékk á dögunum Cobb Partnership verðlaunin sem Fullbright stofnunin í Bandaríkjunum veitir. Viðurkenningin er veitt á Íslandi u.þ.b. annað hvert ár á vegum Fullbright stofnunarinnar en til verðlaunanna var stofnað árið 1991 af þáverandi sendiherrahjónum á Íslandi, Charles E. Cobb Jr. og Sue Cobb. Verðlaunin eru veitt þeim Bandaríkjamanni sem hefur unnið farsællega að samskiptum Íslands og Bandaríkjanna og styrkt tengslin milli landanna tveggja, hvort heldur er á sviði menningar, mennta eða atvinnulífs.

Beth Fox hefur kennt fötluðu fólki á skíði í 25 ár jafnframt því að vera framkvæmdastjóri National Sports Center for Disabled (NSCD) sem sérhæfir sig í útivist fatlaðs fólks. Hún kom fyrst hingað til lands árið 2006 til að leiðbeina bæði fötluðum og leiðbeinendum fatlaðs fólks í skíðaíþróttinni og hefur síðan komið á hverju ári. Þetta verkefni hefur verið í samstarfi Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands, Íþróttasambands fatlaðra, Hlíðarfjalls og NSCD, Winter Park Colorado í Bandaríkjunum. Beth hefur bæði kennt í Hlíðarfjalli og haldið fyrirlestra hér á landi. Beth hefur einnig haft milligöngu um að íslenskir leiðbeinendur og iðkendur hafa getað farið til Winter Park og æft og kynnt sér nánar útivist fatlaðra.

Samstarfið við Beth Fox hefur skilað mikilli framþróun hvað varðar skíðaiðkun fatlaðra á Íslandi, verið mikilsverður þáttur í endurhæfingu og auknum lífsgæðum fólks með fötlun. Því er Beth Fox vel að þessari viðurkenningu komin.