Éljagangur hefst á fimmtudag

Vetrarhátíðin Éljagangur 2011 verður sett í Hlíðarfjalli fimmtudaginn 10. febrúar og stendur fram á sunnudag.  Setningarathöfnin hefst klukkan 19 með snjóhindrunarhlaupi sem skipulagt er af Ungmennafélagi Akureyrar og Hlíðarfjalli. Þátttaka er öllum heimil og er það von skipuleggjenda að sem flestir taki þátt og spreyti sig m.a. við bæjarstjórn Akureyrar sem hefur verið boðið sérstaklega að sýna hvað í henni býr. Að loknu skíðahindrunarhlaupinu tekur við svokölluð Vasaljósganga á vegum Skíðafélags Akureyrar, en þá verða öll ljós í Hlíðarfjalli slökkt og verður eina lýsingin kertaljós sem raðað hefur verður meðfram göngubrautinni, sem og höfuðljós þátttakenda. Þátttaka er ókeypis og öllum opin og boðið upp á heitt kakó og vöfflur á eftir. Veitt eru þátttakendaverðlaun sem og verðlaun fyrir besta/frumlegasta ljósabúnaðinn.

Listrænir hæfileikar yfirkokks veitingarstaðarins 1862 Nordic Bistro í Menningarhúsinu Hofi fá að njóta sín á óvenjulegan máta á föstudaginn klukkan 16 þegar hann sker út ísskúlptúr.  Þetta er viðburður sem enginn má láta framhjá sér fara.

Á föstudaginn klukkan 20  verður snjósleðaspyrna við Leirutjörn/Skautahöllina þar sem hestöflin fá að njóta sín í botn og ef veður leyfir verður klukkan 12 á laugardaginn mótorcrosskeppni á ís á Leirutjörn.

Meðal annarra stórviðburða hátíðarinnar er hin árlega Vetrarsportsýning EY-LÍV (Félagasamtök vélsleðamanna í Eyjafirði) í Boganum sem er opin laugardag og sunnudag og er enginn aðgangseyrir. Þar eru helstu söluaðilar vetraríþróttabúnaðar samankomnir og sýna nýjustu græjurnar í vetrarsporti. Undanfarin ár hefur markhópurinn verið vélsleða og jeppafólk en í ár er sýningin með mun meiri breidd þar sem skíða-, bretta og göngufólk getur fundið ýmislegt við sitt hæfi.

Þessa viðburði og fjölmarga fleiri er að finna á vetrarhátíðinni Éljagangur en allar nánari upplýsingar um hátíðina er að finna á heimasíðunni www.eljagangur.is – hátíðin er einnig að finna á Facebook undir facebook.com/eljagangur.

Skipuleggjendur hátíðarinnar eru:  Hlíðarfjall, AFE, EY-LÍV og Akureyrarstofa.