Góð þátttaka í dagskrárliðum helgarinnar

Margt var um að vera á Vetraríþróttahátíð ÍSÍ um liðna helgi. Í Hlíðarfjalli var héldu brettamenn fyrsta mót vetrarins, konur gengu í spor Þórunnar Hyrnu, börn og unglingar kepptu í listdansi á skautum og loks var hlaupið í snjónum í einu af vetrarhlaupum Ungmennafélags Akureyrar. „Hæstánægður með þátttökuna“
„Við fengum um 30 keppendur og ég er hæstánægður með það. Þetta var fyrsta mót vetrarins hjá okkur og markmiðið að fá sem flesta til að taka þátt - burtséð frá getu þeirra. Fyrirkomulagið var þannig að það fengu allir að stökkva að vild og síðan hittumst við á brettabíói á laugardagskvöldið þar sem hópurinn kaus þann sem þótti standa sig best. Svona fyrirkomulag höfum við áður notað og það kemur vel út," segir Viktor Hjartarson hjá Brettafélagi Akureyrar um Bigjump mótið í Hlíðarfjalli á laugardaginn, einn dagskrárliða Vetraríþróttahátíðar ÍSÍ. Þátttakendum í mótinu var skipt í tvo aldursflokka og gekk allt vel fyrir sig þó vissulega hefði skyggni mátt vera mun betra. "Þessi harði kjarni brettafólks stækkar smátt og smátt hér á Akureyri og tók kipp þegar þrír úr þessum hópi héðan gerðust atvinnumenn. Brettin eru líka almennt í sókn og á sumum dögum má sjá um helming gesta í Hlíðarfjalli á brettum. Eini gallinn er sá að það er erfitt að fá stelpurnar inn í þetta," segir Viktor og bendir á að stökkpallur brettamanna er nú klár í fjallinu fyrir þá sem vilja æfa sig.
 
100 konur í spor Þórunnar hyrnu
Á laugardaginn var einnig efnt til skíðagöngumóts fyrir konur á öllum aldri, móts sem nú var haldið í þriðja sinn undir heitinu Í spor Þórunnar hyrnu. Hægt var að velja um tvær vegalengdir, 3,5 og 7 km. Hátt í eitt hundrað konur mættu til leiks í skemmtilegri göngu og í lok móts voru útdráttarverðlaun en fjöldi fyrirtækja studdi framtakið.
 
74 þátttakendur í listhlaupi
Íslandsmót barna- og unglinga í listhlaupi á skautum fór fram um helgina. Þátttakendur voru 74 frá þremur félögum, þ.e. Birninum, Skautafélagi Reykjavíkur og Skautafélagi Akureyra. Keppt var í 11 flokkum. Skautafélag Reykjavíkur hampaði flestum gullmedalíum á mótinu, en fulltrúar Listhlaupadeildar Skautafélags Akureyrar náðu hins vegar ágætum árangri og tryggðu sér 7 verðlaun af þeim 17 sem félagið gat náð í.
Þess má geta að Skautasamband Íslands fagnaði um helgina 15 ára afmæli sínu ensem kunnugt er eru 10 ár nú liðin frá því að skautahöll var reist á Akureyri.
 
Hlaupið í snjónum
Hlauparar létu ekki snjóinn á sig fá og liður í Vetraríþróttahátíð ÍSÍ var vetrarhlaup UFA, það fimmta á vetrinum. Þátttakendur voru heldur færri en í fyrri hlaupum vetrarins og hefur veður og færð trúlega átt einhvern þátt í því. Þrettán hlauparar mættu til leiks og hlupu hringinn í fínasta veðri en heldur leiðinlegu færi, mikill snjór á göngustígum og göturnar hálar. Bjarki Friðbergsson kom fyrstu í mark á 43:04 og fast á hæla honum kom Rannveig Oddsdóttir á 43:12. Halldór Arinbjarnarson var annar karla á 44:24 og Einar Ingimundarson þriðji á 45:39. Sigríður Einarsdóttir var önnur kvenna á 48:57 og Björk Sigurðardóttir þriðja á 51:42.