Hermann fékk heiðursviðurkenningu

Á hátíðarfundi bæjarstjórnar Akureyrar á dögunum vegna 150 ára afmælis bæjarins var Hermanni Sigtryggssyni, fyrsta framkvæmdastjóra Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands, veitt heiðursviðurkenning fyrir framlag sitt til íþrótta- og tómstundamála í bænum undanfarna áratugi. Við sama tækifæri fékk Jóna Berta Jónsdóttir viðurkenningu fyrir störf sín í 30 ár fyrir Mæðrastyrksnefnd Akureyrar.

 

Hermann fæddist á Akureyri þann 15. janúar 1931. Hann gekk í Barnaskóla og Gagnfræðaskóla Akureyrar og síðan lá leiðin í Íþróttakennaraskóla Íslands þaðan sem hann útskrifaðist árið 1951. Hermann var aðeins 17 ára gamall þegar hann hóf störf sem íþróttakennari hjá UMSE og skólum í Eyjafirði, seinna starfaði hann við íþróttakennslu á Stokkseyri og Eyrarbakka og svo aftur á heimaslóðum fyrir UMSE þar sem hann varð jafnframt framkvæmdastjóri. Hermann var hótel- og framkvæmdastóri fyrir templara á Akureyri um þriggja ára skeið. Lengst var hann íþrótta- og tómstundafulltrúi Akureyrarbæjar eða frá árinu 1963-1996. Frá þeim tíma var hann fyrsti framkvæmdastjóri Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands og móttökustjóri hjá bænum til ársins 2001 þegar hann lét af störfum 70 ára að aldri.
Hermann hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa fyrir KA, ÍBA, Ferðamálafélag Akureyrar, Rótaryklúbb Akureyrar og Norræna félagið á Akureyri. Hermann átti sæti í æskulýðsráði ríkisins, í framkvæmdastjórn ÍSÍ og nefndum fyrir SKÍ og menntamálaráðuneytið svo eitthvað sé nefnt. Hermann sat í ýmsum nefndum fyrir Akureyrarbæ eins og byggingarnefnd Skíðahótelsins og Íþróttahallarinnar.
Hermann var meðal stofnenda Andrésar Andar leikanna árið 1975. Hann starfaði fyrst við Skíðalandsmót Íslands á Akureyri árið 1946 og svo ótal sinnum um allt land eftir það í ýmsum hlutverkum, sem mótsstjóri og í undirbúningsnefndum fyrir landsmótin, síðast í apríl á þessu ári þegar mótið var haldið hér í Hlíðarfjalli. Hann var mörgum sinnum fararstjóri fyrir ÍSÍ og Skíðasambandið á keppnisferðum erlendis og þ.m.t. á Ólympíuleikunum í Lillehammer í Noregi og Innsbruck í Austurríki. Einnig hefur hann verið og er enn formaður nefndar ÍSÍ um íþróttir aldraðra sem stofnuð var árið 2005 og er í starfshópi um hreyfingu fyrir aldraða hér á Akureyri.Hermann hefur m.a. hlotið æðstu viðurkenningar KA, ÍBA, Frjálsíþróttasambands Íslands, Bandalags íslenskra skáta, Skíðasambandsins, Íþróttasambands fatlaðra, Alþjóða ólympíunefndarinnar, HSÍ og finnsku ljónsorðuna. Íslensku fálkaorðuna hlaut hann árið 2007. Að sama skapi er Hermann heiðursfélagi í fjölda félaga bæði á Akureyri og víðar.