Mammútarnir komnir með tvo sigra á EM í krullu

Landslið Íslands í krullu tekur þessa vikuna þátt í Evrópumeistaramóti í greinni sem fram fer í Aberdeen í Skotlandi. Liðið er skipað íslandsmeisturum í greininni hér á landi, Mammútum frá Akureyri og þar eru innanborðs þeir Haraldur Ingólfsson, Jón Ingi Sigurðsson,  Jens Kristinn Gíslason,  Ólafur Freyr Númason og Sveinn H Steingrímsson  Liðið spilar í B-deild EM og hefur þar unnið Slóvakíu og Hvíta-Rússland en tapað fyrir Ungverjalandi, Króatíu og Belgíu.  Á þessari stundu vantar liðið einn sigur til að tryggja áframhaldandi sæti í B-grúppu en mótinu lýkur um næstu helgi.

-->

Landslið Íslands í krullu tekur þessa vikuna þátt í Evrópumeistaramóti í greinni sem fram fer í Aberdeen í Skotlandi. Liðið er skipað íslandsmeisturum í greininni hér á landi, Mammútum frá Akureyri og þar eru innanborðs þeir Haraldur Ingólfsson, Jón Ingi Sigurðsson,  Jens Kristinn Gíslason,  Ólafur Freyr Númason og Sveinn H Steingrímsson  Liðið spilar í B-deild EM og hefur þar unnið Slóvakíu og Hvíta-Rússland en tapað fyrir Ungverjalandi, Króatíu og Belgíu.  Á þessari stundu vantar liðið einn sigur til að tryggja áframhaldandi sæti í B-grúppu en mótinu lýkur um næstu helgi.

Krulla er með yngri íþróttagreinum hér á landi og eingöngu spiluð á Akureyri. Íslendingar hafa einu sinni áður keppt á Evrópumeistaramóti í krullu en auk þess farið erlendis og spilað á heimsmeistaramóti eldri leikmanna, minni mótum eða í heimsóknum hjá vinaklúbbum. Hallgrímur Valsson er einn af þeim u.þ.b. 50 manna hópi sem æfir krullu að jafnaði á Akureyri og segir hann greinina henta öllum aldurshópum.

„Krulla hentar fólki á öllum aldri og það er mikill áhugi á greininni. Okkar vandi er hins vegar takmörkuð aðstaða, sem getur orðið til þess að við gefumst upp á krulluíþróttinni. Við æfum tvö kvöld í viku í Skautahöllinni á Akureyri og það tekur okkur um 40 mínútur í hvert sinn að gera svellið klárt til æfinga. Krulla fer illa saman við notkun í venjulegri skautahöll eins og við höfum hér og ef þessi íþrótt á að lifa og vaxa þá verður hún að fá sérstakan sal með svelli sem ekki er notað í annað. Við finnum því mikinn mun þegar við komum í alvöru krulluís erlendis," segir Hallgrímur sem spilaði á dögunum í Helsingborg þar sem hann var á ferð. Hann segir ólíku saman að jafna að spila í sérhönnuðum krulluhúsum. „En sem dæmi um áhugann sem er á þessari íþrótt hér þá eru 10 lið í Helsingborg sem spila en hér á Akureyri höfum við 8 lið sem æfa og spila að jafnaði. En vegna aðstöðuleysis höfum við ekki enn getað hafið unglingastarf, sem er einn þáttur í að geta eflt íþróttina enn frekar. “

Krulla á rætur hér á landi til ársins 1996 þegar hingað voru gefnir steinar frá Kanada. Þar með varð Ísland 25 þjóðin í þessu sporti og þar með var hægt að skrá krullu sem löglega ólympíugrein. „Krulla er vinsæl og vaxandi íþrótt út um allan heim og við erum bara á fyrstu metrunum í þessu. En vonandi kemur að því einhvern tíma í framtíðinni að við náum inn á Ólympíuleikana í krullu. En til þess þurfum við árangur á bæði heimsmeistara- og evrópumeistaramótum þannig að vegurinn er langur,“ segir Hallgrímur.

Heimasíða Mammútana á EM í Aberdeen:
http://mammothcurling.blogspot.com/