Mikil vakning í skíðamennsku fatlaðra

„Það hefur verið efnt til tveggja námskeiða í vetur og auk þess höfum við boðið upp á leiðbeiningar annan hvern föstudag. Það er greinilega aukinn áhugi meðal fatlaðra á að kynna sér þessa möguleika og nú þegar eru nokkrir einstaklingar sem eru orðnir fyllilega sjálfbjarga á skíðasvæðinu," segir Elsa Skúladóttir, þroskaþjálfi en hún starfar í áhugahópnum Útivist án landamæra að því að leiðbeina fötluðum í notkun skíðabúnaðar. Þetta starf hefur farið fram á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli en grunnurinn að því var lagður með námskeiðum sem Íþróttasamband fatlaðra, Vetraríþróttamiðstöð Íslands og Hlíðarfjall hafa efnt til. Fyrsta námskeiðið var árið 2000 og hafa þau síðan verið haldin reglubundið. Til leiðbeininga á námskeiðunum hefur verið fengið erlent fagfólk á þessu sviði en smám saman hefur myndast lítill hópur fólks í kringum námskeiðin sem hefur aflað sér þekkingar í leiðbeiningum og notkun skíðabúnaðar fyrir fatlaða. Á fyrra námskeiðinu í vetur var bandarískur leiðbeinandi en Elsa og fleiri íslenskir leiðbeinendur önnuðust síðara námskeiðið. Og alla næstu viku mun Elsa, ásamt breskum leiðbeinanda, bjóða leiðbeiningar fyrir fatlaða í Hlíðarfjalli. „Það er mjög mikils virði að byggja upp þekkingu í þessu hér heima en það hefur skipt mjög miklu máli að fá þessa erlendu leiðbeinendur hingað heim til að halda námskeið. Við höfum lært mikið af þeim en þróunin verður fyrst og fremst með því að við höldum starfinu áfram og bætum við þekkinguna," segir Elsa.
 
Setskíðin henta mörgum
Elsa segir mjög mismunandi eftir einstaklingum og fötlun þeirra hvaða útbúnaður henti hverjum og einum.
„Mesta þekkingin hefur byggst upp í notkun á svokölluðum setskíðum en af þeim eru tvær gerðir, annars vegar monoski sem eru með einu skíði og hins vegar Bi-ski sem eru með tveimur skíðum undir sætinu. Þeir sem nota mono-sætið þurfa að hafa mikið og gott jafnvægi jafnframt því að vera með góðan styrk í höndum. Einstaklingurinn er þannig með litla skíðastafi í höndunum sem hjálpa til við að halda jafnvægi og stýra.  Þannig reynir töluvert á handstyrkinn. Þessa gerð af setskíðum geta margir nýtt sér og átta einstaklingar hér á landi eru orðnir ágætlega færir á þessum stólum og sjálfbjarga,“ segir Elsa.
Bi-ski eru setskíði með tveimur breiðum skíðum og segir Elsa þau henta bæði þeim sem geta bjargað sér sjálfir, en hafa ekki nægilega gott jafnvægi fyrir monoski-útfærsluna, en einnig nýtist Bi-ski t.d. fjölfötluðum sem þurfi aðstoðarmann til að stjórna setskíðunum.
„Þetta starf er mjög gefandi því upplifun fólksins af því að vera í brekkunum innan um annað skíðafólk er sterk. Margir upplifa sig standa jafnfætis öðrum þegar í brekkurnar er komið og skiljanlega hlýtur það að vera upplifun fyrir þetta fólk," segir Elsa.
 
Læra að verða sjálfbjarga í brekkunum
Fatlaðir geta leigt búnað í Hlíðarfjalli en eins og áður segir eru nokkrir einstaklingar farnir að stunda skíðin reglubundið. Sumir þeirra hafa komið sér upp eigin skíðabúnaði. „Í flestum tilfellum þarf þetta fólk einhverja aðstoð til að koma sér í setskíðin en síðan bjargar það sér sjálft, að öðru leyti en því að fá hjálp starfsfólks á svæðinu til að fara í lyfturnar," segir Elsa og bendir á að auk fólks með varanlega fötlun þá geti margir þeirra sem eru í endurhæfingu eftir slys nýtt sér hjálparbúnað til að fara á skíði.
„Meirihluti þeirra sem sótt hafa námskeiðin hér í Hlíðarfjalli og leiðbeiningar hjá okkur kemur annar staðar frá af landinu og það segir mikið um þörfina á þessu starfi. En það er óhætt að tala um vakningu í þessu meðal fatlaðra. Sá er einmitt tilgangur starfs okkar í Útivist án landamæra - að opna leið fyrir fólk með fötlun til að njóta útivistar," segir Elsa Skúladóttir.

Hér má sjá myndir frá námskeiði VMÍ og Íþróttasambands fatlaðra fyrr í vetur - smellið hér