Snjór um víða veröld

Mikið verður viðhaft næstkomandi sunnudag, 22. janúar, á öllum helstu skíðasvæðum Íslands. Þá taka Skíðasamband Íslands, skíðafélögin og skíðasvæðin höndum saman um þátttöku í átaki Alþjóða skíðasambandsins, FIS, um að tileinka einn dag á vetri hvatningu til aukinnar skíðaiðkunnar barna. „World Snow Day“ er nú haldinn í fyrsta sinn um allan heim og hér á landi undir yfirskriftinni „Snjór um víða veröld“. Af þessu tilefni verður ókeypis á skíðasvæðin á sunnudag fyrir 12 ára og yngri og á skíðavæðunum í Hlíðarfjalli, Dalvík, Ólafsfirði, Siglufirði, Tindastóli, Stafdal og Oddsskarði verður frítt fyrir alla þennan dag. 

Mikill áhugi á þátttöku
Þórunn Sif Harðardóttir, framkvæmdastjóri Skíðasambands Íslands, segir að þrátt fyrir að átakið beinist sérstaklega að skíða- og brettaiðkun barna þá sé það almenn hvatning til fjölskyldna landsins um að nýta sér frábærar aðstæður skíðasvæðanna og njóta hollrar vetrarútivistar. 

„Við viljum alltaf sjá fleiri börn og unglinga á skíðum og það skiptir miklu um að halda skíðaíþróttinni við. Þátttaka í þessum degi Alþjóða skíðasambandsins er því kjörið tækifæri til að taka höndum saman með skíðasvæðunum, skíðafélögunum og stuðningsaðilum skíðaíþróttarinnar hér á landi. Við erum mjög ánægð með þau góðu viðbrögð sem við höfum alls staðar fengið og fólk ætti að taka næstkomandi sunnudag strax frá, ákveða að tileinka hann skíðaíþróttinni og fara með börnunum í brekkurnar,“ segir Þórunn Sif. 

Ókeypis fyrir börn – sum skíðasvæðanna bjóða ókeypis fyrir alla
Eins og áður segir ætla sum skíðasvæðanna að bjóða öllum frítt í lyftur þennan dag en almennt verður frítt fyrir 12 ára og yngri. Mörg skíðasvæðanna bjóða einnig afslátt af verði á leigubúnaði, í boði verða sérstakar skemmtilegar brautir fyrir börn á mörgum svæðum. Boðið verður upp á tilsögn fyrir byrjendur, kakó fyrir alla og börnin geta fyllt út lukkumiða. Vinningar í lukkumiðaleiknum verða gjafabréf frá 66N, Everest og árskort á skíðasvæði. 

„Hvert og eitt svæði útfærir og kynnir sína dagskrá en nærfellt öll skíðasvæði landsins ætla að taka þátt í verkefninu. Það sýnir að mikill hugur er í öllum sem vinna að framgangi skíðaíþróttarinnar hér á landi þessa dagana og við þær aðstæður sem við höfum um allt land núna sanna skíðabrekkurnar sig sem vettvangur fyrir almenningsútivist að vetrinum,“ segir Þórunn Sif.