Þétt dagskrá á Éljagangi um næstu helgi

Fimmtudaginn 9. febrúar hefst vetrarhátíðin Éljagangur 2012 á Akureyri en hún er fastur liður í vetrarafþreyingu í bænum. Að hátíðinni standa EY-LÍV félag vélsleðamanna í Eyjafirði, Akureyrarstofa, KKA akstursíþróttafélag, Vetraríþróttamiðstöð Íslands, Hlíðarfjall, Skíðafélag Akureyrar og Ungmennafélag Akureyrar. Hátíðin stendur í fjóra daga en dagskrárliðir hennar eru í Hlíðarfjalli, á Akureyri og víðar á Norðurlandi. 
Setning hátíðarinnar verður á Ráðhústorgi kl. 17 á fimmtudag en alla fjóra dagana verða í boði troðaraferðir á Kaldbak með Kaldbaksferðum, vélsleðaferðir frá Kálfsskinni á Árskógsströnd í umsjón Sportferða, hestaferðir verða hjá Polarhestum í Gtýtubakkahreppi, troðnar gönguskíðabrautir verða í Kjarnaskógi en gönguskíðabraut í Hlíðarfjalli verður einnig troðin. Og vart þarf að nefna að skíðasvæðið í Hlíðarfjalli og önnur skíðasvæði í nágrennininu verða að sjálfsögðu einnig opin alla dagana. 
Meðal viðburða strax að lokinni setningu hátíðarinnar verður vasaljósaganga við skíðagönguhúsið í Hlíðarfjalli kl. 19.30 á fimmtudagskvöld og kl. 20 mun Ferðafélag Akureyrar efna til ferðakynningar sinnar í menningarhúsinu Hofi. 

Ísskúlptúr, snjóbrettakeppni, spyrna og flugeldasýning
Af dagskrá föstudagsins má vekja athygli á að starfsmenn veitingastaðarins 1862 Nordic Bistro í Hofi ætla að smíða ísskúlptúr fyrir framan inngang Hofs kl. 16 á föstudag og kl. 19:30 hefst skautadiskó í Skautahöllinni. Þá verður Camp Lobster snjóbrettakeppni og sýning í Hlíðarfjalli kl. 18 og einnig verður vélsleðaspyrna KKA í Hlíðarfjalli á sama tíma. Þessum degi lýkur síðan með glæsilegri flugeldasýningu kl. 22. 

Allt sem hugurinn girnist á Vetrarsporti i Boganum
Dagskrá Éljagangs nær svo hámarki á laugardag og stanslaus dagskrá verður frá morgni til kvölds. Meðal annars fjallganga á Kerlingu, dorgveiði á Ljósavatni, fjallaskíðanámskeið Bergmanna í Hlíðarfjalli, þorraferð á skíðum í Fjallaborg á vegum Ferðafélags Akureyrar, fjölskylduferðir á vélsleða með aftanívagni á vegum Extreme Adventures, kassaklifur í Boganum á vegum björgunarsveitarinnar Súlna, Íslandsgangan 2012 í Hlíðarfjalli og Íslandsmeistaramót í ískrossi á vélhjólum á Leirutjörn á vegum KKA. Hæst ber síðan sýninguna Vetrarsport EY-LÍV í Boganum sem hefst kl. 11 á laugardagsmorgun og verður opin til kl. 17. Þar má skoða allt sem tengist vetrarsporti, hvort heldur er í tækjum, fatnaði eða öðrum búnaði. Sýningin verður einnig opin á sunnudag kl. 12-16. Frítt er inn á sýninguna.
Af öðrum dagskrárliðum sunnudags má nefna fyrirlestur um örugga ferðamennsku á vélsleðum sem fluttur verður á Vetrarsportsýningunni í Boganum kl. 14 og flutning Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands á píanókonsert Jóns Ásgeirssonar í Hofi kl. 16. Opið verður fyrir almenning kl. 13-17 í Skautahöllinni, fjallaskíðanámskeið verður í Hlíðarfjalli, snjóþrúguganga, Yoga, troðaraferðir á Kaldbak, vélsleðaferðir í Kálfsskinni, hestaferðir með Polarhelstum og margt fleira. 

Dagskrá hátíðarinnar er að finna á heimasíðunni www.eljagangur.is og þar eru jafnframt birtar fregnir af breytingum sem kunna að verða á dagskrá með skömmum fyrirvara.