Hermann vígði nýja lyftu á 80 ára afmælisdaginn

Hermann Sigtryggsson, fyrsti framkvæmdastjóri Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands, vígði nýja toglyftu við Skálabraut í Hlíðarfjalli á 80 ára afmælisdegi sínum, þann 15. janúar síðastliðinn. Fór vel á því, enda Hermann verið ötull hvatamaður uppbyggingar á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli og átt þar ófá handtök í framkvæmdum. Að ekki sé minnst á starf hans að uppbyggingunni sem íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Akureyrarbæjar til fjölda ára.

Hermann er fæddur og uppalinn á Eyrinni á Akureyri þar sem fylkingar KA og Þórs mættust. Hermann hallaðist að KA og undir merkjum félagsins keppti hann í spretthlaupum og spilaði knattspyrnu í öllum flokkum félagsins. Hermann fór í Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni og útskrifaðist þaðan árið 1951. Fyrsta árið að loknu námi var hann íþróttakennari á Eyrarbakka en fluttist síðan í heimahagana og tók við framkvæmdastjórn Ungmennasambands Eyjafjarðar. Hann varð síðan framkvæmdastjóri Félags- og æskulýðsheimila templara og sem slíkur jafnframt hótelstjóri Hótels Varðborgar, síðar Hótels Norðurlands. Þaðan lá leið hans til bæjarfógetaembættisins þar sem hann var sýsluskrifari og síðar gjaldkeri til ársins 1963. Það ár var hann ráðinn í starf íþrótta- og æskulýðsfultrúa Akureyrarbæjar, þá orðinn formaður KA, en lét samhliða af því embætti.

Hermann vann ötullega að uppbyggingu aðstöðunnar í Hlíðarfjalli og á mikinn þátt í bæði kaupum á fyrstu stólalyftu svæðisins sem og fyrsta snjótroðaranum. Hvort tveggja fjárfestingar sem miklu breyttu um þróun skíðaíþróttarinnar á Akureyri. Þá á Hermann mörg handtök í aðstöðu skíðagöngumanna í Hlíðarfjalli.

Hermann hefur setið í óteljandi stjórnum og ráðum fyrir íþróttahreyfinguna og fleiri. Nefna má Íþróttabandalag Akureyrar, Íþrótta- og ólympíusamband Íslands, Skíðasamband Íslands, Skíðaráð Akureyrar, Ferðamálafélag Akureyrar, Rótarýklúbb Akureyrar og Norræna félagið, svo fátt eitt sé nefnt. Hann stýrði fjölda skíðalandsmóta og vetraríþróttahátíðum ÍSÍ, var í mótsstjórn Andrésar andar leikanna um árabil. Var fararstjóri á vetrarólympíuleikum í Insbruck og á heimsmeistaramóti í norrænum greinum skíðaíþrótta.

Hermann hefur hlotið fjölda silfur-, gull og heiðursviðurkenninga í gegnum tíðina. Nefna má Dannebrogsorðuna, Paul Harris heiðursviðurkenningu Rotary, heiðursviðurkenningu Íþróttasambands Íslands og Alþjóðaólympíunefndarinnar að ógleymdri riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu. Heiðursfélagi er hann í KA, Samtökum æskulýðs-, íþrótta-, og tómstundafulltrúa, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Rotaryklúbbi Akureyrar, Íþróttabandalagi Akureyrar, Siglingaklúbbnum Nökkva og síðast en ekki síst er hann heiðursfélagi Andrésar andar leikanna.

Árið 1996 lét Hermann af starfi íþrótta- og æskulýðsfulltrúa Akureyrarbæjar en varð þá fyrsti framkvæmdstjóri Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands og starfaði sem slíkur til sjötíu ára aldurs.

Stjórn Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands árnar honum heilla á 80 ára afmælinu.