Fundur 1

Stjórn VMÍ: Fundur nr. 1
Fyrsti stjórnarfundur Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands (VMÍ) haldinn að Hótel KEA 22. oktober 1995 kl. 15.00.

Mættir voru eftirtaldir stjórnarmenn: Þórarinn E. Sveinsson, formaður, Tómas Ingi Olrich, varaformaður, Steingrímur Birgisson, Benedikt Geirsson , Þröstur Guðjónsson, Logi Már Einarsson og Margrét Baldvinsdóttir.

Þetta gerðist:

1.
Formaður bauð fundarmenn velkomna og setti fundinn. Stungið var upp á Steingrími Birgissyni sem ritara og Benedikt Geirssyni sem gjaldkera og var það samþykkt.

2.
Samþykkt var að koma á föstum fundartíma, mánaðarlega á föstudögum. Ákveðið að næsti fundur verði föstudaginn 8. desember n.k. KL. 16.00 að Hótel KEA.

3.
Rætt um starfsmann stjórnar VMÍ og samþykkt að fela formanni að ræða við Hermann Sigtryggsson um ráðningu hans í starfið.

4.
Samþykkt að miða laun stjórnarmanna VMÍ við sömu laun og eru hjá ÍTA hjá Akureyrarbæ.

5.
Rætt um stefnu og fyrirkomulag VMÍ. Samþykkt að miða við að Akureyrarbær eigi mannvirki en ríkið leggi fram stofnfjárframlög og rekstrarstyrki og var formanni falið að ræða við Akureyrarbæ og varaformanni við ríkið um þá tilhögun.

Áréttað að rekstrarfarvegurinn þurfi að komast á hreint hið fyrsta til að koma í veg fyrir misskilning og of miklar væntingar í upphafi. Kom fram að menn eru sammála um að best sé að eignafyrirkomulagið sé á einni hendi (Hlíðarfjall, Kjarni, Skautasvellið) og var formanni falið að kanna möguleika á því.

6.
Að lokum var rætt vítt og breitt um málefni VMÍ.

Hvað eru vetraríþróttir og hverjar eiga að falla undir VMÍ. Skv. reglugerð nr. 362/1995 þá er verksvið stjórnar VMÍ hefðbundnar vetraríþróttir, fræðsla og útivist og kom mönnum saman um að í því sambandi sé verið að tala um þrjú meginsvæði er snerta íþróttina, þ.e. Hlíðarfjall, Skautasvell SA og Kjarnaskóg og síðan VMA eða Háskólann hvað fræðsluhliðina snertir. Hefðbundnar vetraríþróttir töldu menn vera skíði, skauta og vélsleða, en dæmi um óhefðbundnar vetraríþróttir voru t.d. Curling og dorg.

Fram kom að í óefni stefnir í Hlíðarfjalli á komandi vetri með snjótroðara, en því gæti nefndin líklega varla bjargað á þessu stigi.

Hugmynd um að markaðssetja Hlíðarfjall og vélfryst skautasvell á heilsársgrundvelli voru nefndar og þá að höfða til að mynda til göngufólks og fatlaðra.

Þá kom fram að nefndarmenn töldu bráðnauðsynlegt að koma veginum upp í Hlíðarfjall inn á þjóðvegakerfið til að bæta ástand hans sem og ástand bílastæða við Skíðastaði.

Að lokum var komið inn á merki fyrir VMÍ og nefnt að hugsanlega mætti efna til samkeppni um það.

Fundi var slitið kl. 17.30

Steingrímur Birgisson
ritari.