Fundur 10

Stjórn VMÍ: Fundur no. 10.
Ár 1997 mánudaginn 25. ágúst var fundur haldinn í stjórn Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands að Geislagötu 9, Akureyri og hófst kl. 9.00.

Mættir voru eftirtaldir stjórnarmenn: Þórarinn E. Sveinsson, Tómas Ingi Olrich, Steingrímur Birgisson, Þröstur Guðjónsson, Benedikt Geirsson. Þá mættu Eiríkur B. Björgvinsson, íþrótta og tómstundafulltrúi Akureyrar og Ívar Sigmundsson, forstöðumaður Vetraríþróttamiðstöðvarinnar í Hlíðarfjalli auk framkvæmdastj. stjórnar VMÍ Hermanns Sigtryggssonar.

Formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna, lagði fram dagskrá og skírði hana.

1. Fyrir var tekið umsókn frá Íþrótta og tómstundaráði Akureyrar, til stjórnar VMÍ, um fjárveitingu til framkvæmda við skíðamannvirki í Hlíðarfjalli að upphæð kr. 109.000.000.-. Með umsókninni fylgir yfirlit um forgangsröð verkefna í fjallinu á árunum 1998 - 2002.

Undir þessum lið gaf formaður gestum fundarins orðið.

Eiríkur fór yfir yfir hvern lið áætlunar ÍTA varðandi forgangsröð verkefna í Hlíðarfjalli. þá skírði Ívar einnig einstaka verkþætti áætlunarinnar og sýndi nýtt skipulagskort af skíðasvæðinu Hlíðarfjalli, sem verið er að vinna að í samvinnu við skipulagsstjóra Akureyrarbæjar, en um þessar mundir er unnið að deiliskipulagi fyrir útivistarsvæðið í Hlíðarfjalli.

Fengu fundarmenn gott yfirlit yfir áætlaðar framkvæmdir sem gert er ráð fyrir að verði í Hlíðarfjalli til ársins 2002, svo og kostnaðartölur.

Form. stjórnar VMÍ Þórarinn Sveinsson gat þess að hér væri aðeins um áætlanir að ræða, ekki raunhæfar útboðstölur. Hann gat jafnframt þeirra verkefna sem eru hvað brýnust að mati ÍTA, eins og skipulagsmál í fjallinu, vinna við stækkun bílastæða, slétta brekkur, setja upp flóðljós, stækkun þjónustuhússins Strýtu og kaup á nýjum troðara. Að þessum málum þyrfti að vinna á næsta ári og jafnvel í ár, en í framhaldi af því á næstu árum nýjar lyftur, breyting á Skíðahótelinu, búnaður til snjóframleiðslu ofl.

Þá ræddi Þórarinn um gjaldskrá og markaðssetningu skíðamiðstöðvarinnar í Hlíðarfjalli. Einnig gaf Þórarinn yfirlir yfir stöðu mála varðandi yfirbyggt skautasvell.

Benedikt Geirsson lagði áherslu á að unnið yrði strax að skipulagsmálum í fjallinu og tóku fundarmenn undir það. Þá benti Benedikt á að amk. einn Íslenskur skipulagsfræðingur væri með hönnun skíðastaða sem sérgrein. Hann heitir Guðmundur Jónsson og er nú búsettur í Bandaríkjunum. Benedikt falið að hafa samband við hann og kanna hvort möguleiki sé á að fá hann til aðstoðar við gerð skipulags skíðastaðarins í Hlíðarfjalli.

Tómas Ingi benti á að þeir peningar frá ríki og bæ sem ætlaðir væru til Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands ættu fyrst og fremst að fara til uppbyggingar. Benti hann á brýna nauðsyn þess að skíðasvæðið yrði skipulagt sem fyrst og tók undir orð Benedikts í því máli. Þá taldi hann aðkallandi að fá nýja lyftu og troðara hið allra fyrsta svo og að bæta aðstöðuna í Strýtu sem er mikilvægur staður miðsvæðis í skíðalandinu. Gera þyrfti skíðastaðinn í heild aðlaðandi fyrir landsmenn.

Steingrímur Birgisson taldi að eftir skipulagsmálum findist sér sem skíðaáhugamanni að endurnýjun á snjótroðara mætti ekki dragast og með tilliti til ástands næsta umhverfis Skíðahótelsins, þegar voraði í fjallinu, þá þyrfti að malbika bílastæðin sem fyrst.

Þröstur Guðjónsson gat um aðstöðu og búnað fyrir fatlaða í vetraríþróttamiðstöðinni í fjallinu og gæta þarf þess að allir sitji þar við sama borð í þessum efnum.

Fyrirspurnir komu frá stjórnarmönnum um kostnað við einstakar nýframkvæmdir, breytingar, uppsetningu snjóbyssu ofl. Því svöruðu Eiríkur og Ívar og lofuðu jafnframt að koma með nánari upplýsingar síðar.

Ívar og Eiríkur yfirgáfu fundinn kl. 10.30.

Fundarmenn ræddu umsókn ÍTA svo og upplýsingar er Eiríkur og Ívar komu með á fundinn. Farið var aftur yfir lista ÍTA um forgangsröð verkefna í Hlíðarfjalli, lið fyrir lið.

Ákveðið að fresta afgreiðslu umsóknar ÍTA um fjárframlög til Skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli til næsta fundar. Formanni og framkvæmdastjóra falið að gera tillögur þal. og leggja þær fyrir fundinn, sem verður mánudaginn 8. september n.k.

2. Málefni Skautasvæðis Skautafélags Akureyrar.
Þó svo að skautasvellið hafi ekki verið á dagskrá, spunnust miklar umræður um málefni og stöðu skautaíþróttarinnar með tilliti til byggingar skautahúss á Akureyri.

Fyrr á fundinum var Þórarinn búinn að gera fundarmönnum grein fyrir hvernig þessi mál stæðu, m.a. eftir fund sem hann og íþrótta-og tómstundafulltrúi bæjarins áttu með formanni bygginganefndar Skautafélags Akureyrar fyrir nokkrum dögum síðan.

3. Skíðavalbraut við Verkmenntaskólann á Akureyri. Þröstur Guðjónsson og framkv.stj. VMÍ gáfu upplýsingar um framgang mála varðandi skíðavalbraut við VMA.

4. Borist hafa svohljóðandi bréf frá Skíðasambandi Íslands og Menntamálaráðuneytinu:

Bréf SKÍ.

Vetraríþróttamiðstöð Íslands
Geislagötu 9
600 Akureyri.

Eftirfarandi þingsáliktunartillaga var samþykkt á Skíðaþingi 1997 og er hér með komið á framfæri:

Þing Skíðasambands Íslands, haldið á Mývatni 23. til 25 maí 1997 lýsir ánægju sinni með samning sem gerður hefur verið milli Menntamálaráðuneytis, Akureyrrarbæjar og Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands um uppbyggingu vetraríþróttamiðstöðvar á Akureyri.

Einnig lýsir Skíðasambandsþing ánægju sinni með að undirbúningur að stofnun skíðabrautar við Verkmenntaskólann á Akureyri sé hafinn.

Virðingarfyllst

Kristinn H. Svanbergsson, -sign-
framkvæmdastjóri.

Bréf Menntamálaráðuneytisins:

Vetraríþróttamiðstöð Íslands
Hermann Sigtryggsson
Geislagötu 9
600 Akureyri.

Ráðuneytið hefur móttekið bréf yðar dags. 30. maí ásamt fjárhagsáætlun fyrir árið 1998.

Ráðuneytið mun taka málið til athugunar í tengslum við gerð fjárlaga 1998.

F.h.r.

Örlygur Geirsson -sign- /
Ragnheiður Jónasdóttir.

Stjórn VMÍ lýsti ánægju með undirtektir ársþings Skíðasambands Íslands, sem fram koma í bréfi SKÍ, um málefni Vetraríþróttamiðstöðvarinnar og í sambandi við bréf Menntamálaráðuneytisins sagði Tómas Ingi Olrich að hann væri athuga áfram þátttöku ráðuneytisins í uppgjöri VMÍ fyrir árin 1996 og 1997.

Fleira ekki fyrir tekið.
Fundi slitið kl. 11.40