Fundur 13

Stjórn VMÍ: Fundur nr. 13
Ár 1997 föstudaginn 14. nóvember var fundur haldinn í stjórn Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands á Fiðlaranum á Akureyri og hófst kl. 12.00

Mættir voru eftirtaldir stjórnarmenn: Þórarinn E. Sveinsson, Tómas Ingi Olrich, Þröstur Guðjónsson, Benedikt Geirsson og Steingrímur Birgisson auk framkvæmdastj. stjórnar VMÍ Hermanns Sigtryggssonar.

Formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna, lagði fram dagskrá og skírði hana. Fundurinn er haldinn í hádegisverðarhléi á ráðstefnu VMÍ um vetraríþróttir, sem hófst í gær og stendur til hádegis á morgun. Stjórnarmenn sækja flestir ráðstefnuna.

1. Tekið fyrir bréf frá forseta ÍSÍ Ellert B. Schram þar sem hann óskar eftir því að fulltrúi Skautasambandsins sitji fundi stjórnar VMÍ.
Samþykkt að bjóða Skautasambandinu að senda fulltrúa á stjórnarfundi, tímabundið, þegar skautamálefni liggja fyrir fundi.
Framkvæmdastjóra falið að ræða við formann Skautasambandsins um þessa ákvörðun.

2. Borist hefur svofelld ályktun frá skautaþingi 1997:
" Skautaþing 1997 haldið á Akureyri 8. nóvember 1997, beinir því til aðstandenda Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands að tryggt verði að fulltrúi Skautasambandsins sitji í stjórn Vetraríþróttamiðstöðvarinnar.
Jafnframt vill skautaþing beina því til stjórnar Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands að hafist verði handa við uppbyggingu skautamannvirkja á Akureyri sem allra fyrst."

3. Rætt um hugmyndir sjónvarpsstöðvarinnar Sýnar um beinar útsendingar af vettvangi vetraríþrótta og þá sérstaklega af Skíðamóti Íslands , sem haldið verður á Akureyri 3. – 6. apríl 1998.
Fundarmenn lýstu ánægju sinni með áhuga stöðvarinnar á þessum málum.

4. Rætt um möguleika á að gera skoðanakönnun á viðhorfi til vetraríþrótta.

Fleira ekki fyrir tekið.
Fundi slitið kl. 13.15