Fundur 14

Stjórn VMÍ: Fundur nr. 14
Ár 1998 laugardaginn 7. febrúar var fundur haldinn í stjórn VMÍ að Geislagötu 9 og hófst kl. 10.30.

Mættir voru eftirtaldir stjórnarmenn: Þórarinn E. Sveinsson, Tómas Ingi Olrich, Benedikt Geirsson, Steingrímur Birgisson, Kristján Eldjárn.Jóhannesson, Magnús Finnsson auk framkvæmdastj. stjórnar VMÍ Hermanns Sigtryggssonar og Þrastar Guðjónssonar, sem mætti í lok fundar.

Formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna og þá sérstaklega Magnús Finnsson, sem nú mætir sem áheyrnarfulltrúi á stjórnarfundi VMÍ á vegum Skautasambands Íslands. Þá lagði formaður fram dagskrá fundarins og skírði hana.

1. Farið var yfir dagskrá ráðstefnu VMÍ um vetraríþróttir, sem haldin var í Alþýðuhúsinu á Akureyri 13. – 15. nóvember s.l. og fór fram í stórum dráttum sem hér segir:

Ráðstefnan hófst fimmtudaginn 13. nóvember kl. 16.00 með ávarpi Björns Bjarnasonar , menntamálaráðherra og Benedikts Geirssonar, sem flutti ávarp f.h. forseta ÍSÍ sem ekki gat mætt á staðinn.

Formaður stjórnar Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands Þórarinn E. Sveinsson flutti ávarp og setti ráðstefnuna.

Erindi og kynningar:

Tómas Ingi Olrich, alþingismaður og varaformaður stjórnar Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands flutti erindi um stefnu og markmið Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands.

Dr. Ingvar Teitsson, dósent við heilbrigðisdeild Háskólans á Akureyri og formaður Ferðafélags Akureyrar flutti erindi um íþróttir útivist og heilbrigði.

Á eftir svöruðu ræðumenn fyrirspurnum.

Föstudaginn 14. nóvember hófst ráðstefnan kl. 9.00:

Guðmundur Karl Jónsson, skíðarekstrarfræðingur og aðstoðarforstjóri Lenko (fyrirtæki sem framleiðir m.a. snjógerðarvélar), flutti erindi um skipulag og markaðsmál skíðasvæða, hlutverk skíðasvæða í dag og skíðasvæði framtíðarinnar.

Eftir kaffihlé hélt Guðmundur erindi sínu áfram og talaði nú um skipulag og öryggismál skíðasvæða, um snjóframleiðslu og möguleika á henni á Íslandi. Þar á eftir svaraði hann fyrirspurnum.

Sigurður Magnússon, fræðslustjóri hjá ÍSÍ og Guðjón Arngrímsson, framkvæmdastjóri hjá útgáfufyrirtækinu Athygli ehf. fluttu erindi um ímynd, almenningsálit og útbreiðslustarf í sambandi við vetraríþróttir ofl.

Næst á dagskrá var kynning sérsambanda ÍSÍ á almennri útivist að vetrinum:

Kristinn Svanbergsson, framkvæmdastjóri Skíðasambands Íslands.

Magnús E. Finnsson, formaður Skautasambands Ísland

Svanur Ingvarsson, formaður vetraríþróttanefndar Íþróttasambands fatlaðra.

Hlé. Stjórn Vetraríþróttamiðstöðvarinnar bauð til hádegisverðar á Fiðlaranum. Í hádegisverðarhléi hélt stjórn VMÍ fund. Að honum loknum kl. 13.30 var ráðstefnunna haldið áfram.

Magnús Jónasson, formaður íshokkídeildar Skautasambands Íslands flutti erindi um skipulag og rekstur skautasvæða.

Per Höy, íþróttakennari og stjórnarmaður í Danska íshokkísambandinu flutti erindi um ímynd skautaíþróttarinnar í Danmörku, uppbyggingu og fjármögnun skautamannvirkja, stjórnmál og íþróttir og menntunar og uppeldishlutverk íþrótta.

Paul Speight, forstjóri Spokes´n Motion (sem er fyrirtæki í Bandaríkjunum, sem hefur sérhæft sig í hönnun og framleiðslu á hvers konar hjálpartækjum og búnaði til að auðvelda fötluðum að stunda vetraríþróttir) flutti erindi um íþróttir fyrir fatlaða.

Kl. 17.30 um kvöldið var móttaka í Skíðahótelinu í boði bæjarstjórnar Akureyrar.

Á laugardag 15. nóvember fór fram kynning á ýmsum vetraríþróttum sem ekki hafa hingað til talist til hefðbundinna vetraríþrótta, en eru nú í æ ríkari mæli að harsla sér völl á því sviði.

Þeir sem kynntu viðkomandi greinar voru þessir:

Áslaug Kristjánsdóttir ú Hestamannafélaginu Létti og Jósteinn Aðalsteinsson úr Hestamannafélaginu Funa kynna hestaíþróttir sem stundaðar eru að vetrarlagi.

Smári Sigurðsson úr Björgunarsveit skáta kynnir vélsleða og jeppaferðir eð vetrarlagi.

Tryggvi Marinósson úr Skátafélagi Akureyrar kynnti fyrirhugaða útilífsmiðstöð skáta að Hömrum við Akureyri.

Egill Kolbeinsson úr samtökum snjóbrettamanna kynnti æfingar á snjóbrettum.

Gísli Kristinsson, formaður Curlingnefndar Skautafélags Akureyrar, kynnti curlingíþróttina og tilkomu hennar á Íslandi fyrir nokkrum árum.

Ráðstefnuslit:

Tómas Ingi Olrich sá um samantekt efnis í fundarlok og afhenti aðalfyrirlesurum gjafir frá stjórn VMÍ.

Í tengslum við ráðstefnuna var kynning á vörum og þjónustu sem tengjast vetraríþróttum á Íslandi frá nokkrum fyrirtækjum og félagasamtökum í hliðarsal við ráðstefnusalinn.

Undirbúning og skipulag ráðstefnunnar annaðist Ferðamálamiðstöð Eyjafjarðar á Akureyri í samvinnu við undirbúningsnefnd VMÍ.

Ráðstefnustjórar voru Hermann Sigtryggsson og Benedikt Geirsson.

Uppgjör fyrir ráðstefnuna hefur enn ekki borist frá gjaldkera Ferðamálamiðstöðvarinnar, en verður sent stjórnarmönnum strax og það er tilbúið.

2. Á ráðstefnunni festi stjórn VMÍ kaup á sérhæfðum útbúnaði og hjálpartækjum til að auðvelda fötluðum að stunda vetraríþróttir. Framkvæmdastjóra falið að ganga frá greiðslum af reikn.VMÍ no. 06-004-285-1 til bráðabirgða, einnig var honum falið að hafa samband við Íþróttasamband Fatlaðra, um samvinnu á kynningu á vetraríþróttum sem víðast á landinu og nýta m.a. til þess þau nýju tæki sem VMÍ festi kaup á.

3. Þeir Kristján Eldjárn og Magnús Finnsson lögðu fram teikningar og útboðsgögn Skautafélags Akureyrar af yfirbyggingu yfir skautasvell félagsins og gáfu fundarmönnum upplýsingar um gang mála þ.a.l.

Miklar umræður urðu um yfirbyggingu skautasvellsins og svöruðu þeir Kristján og Magnús fjölmörgum spurningum frá fundarmönnum um uppbyggingu og rekstur skautasvella.

Þórarinn E. Sveinsson greindi frá stefnu bæjarstjórnar í þessum málum og sagði að þriggja áætlun um framkvæmdir væri nú í smíðum hjá bæjarstjórn.

4. Eftirfarandi tillaga var samþykkt af öllum stjórnarmönnum VMÍ:

" Stjórn Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands er reiðubúin til að leggja fram á næstu árum 50 milljónir króna, af væntanlegum fjárveitingum ríkis og bæjar til VMÍ, til yfirbyggingar yfir skautasvell SA á Akureyri.

Forsendur þess eru að samningar náist milli Akureyrarbæjar og Skautafélags Akureyrar um rekstur, uppbyggingu og eignarhald á mannvirkjum".

5. Lagt fram bréf dags. 1. desember 1997 frá stjórn Íshokkýdeildar Skautasambands Íslands og afrit af sama bréfi sem borist hafði bæjarstjórn Akureyrar og framsent VMÍ. Í bréfinu vill deildin minna á að við hönnun á fyrirhugaðri skautahöll á Akureyri verði farið eftir þeim stöðlum, sem Alþjóða Íshokkísambandið hefur sett um stærð vallar, búningsklefa og aðra aðstöðu. Tryggja verði að skautahöll sem hluti af Vetraríþróttamiðstöð Íslands uppfylli slíkar kröfur. Jafnframt óskar ÍHÍ eftir samráði vegna hönnunar fyrirhugaðrar skautahallar verði hún hluti Vetraríþróttamiðstöðvarinnar.

6. Lagt fram bréf frá bæjarstjórn um kaup á snjótroðara í Hlíðarfjall þar sem miðað er við að kaupin verði fjármögnuð með framlagi frá Vetraríþróttamiðstöð Íslands í samræmi við samþykkt stjórnarinnar frá 8. des. 1997. Bæjarsjóður mun fjármagna kaupin þar til endurgreiðsla berst.

Fleira ekki fyrir tekið
Fundi slitið kl. 12.30