Fundur 15

Stjórn VMÍ: Fundur nr. 15
Ár 1998 sunnudaginn 10. maí var fundur haldinn í stjórn VMÍ að Geislagötu 9 og hófst kl. 10.30.

Mættir voru eftirtaldir stjórnarmenn: Þórarinn E. Sveinsson, Tómas Ingi Olrich, Benedikt Geirsson, Steingrímur Birgisson, Þröstur Guðjónsson og Magnús Finnsson auk framkvæmdastj. stjórnar VMÍ Hermanns Sigtryggssonar.

Formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna, lagði fram dagskrá fundarins og skírði hana.

1. Fyrir lá tillaga að fjárhagsáætlun fyrir árið 1999.
Stjórn VMÍ samþykkti hana fyrir sitt leyti og fól framkvæmdastjóra að senda hana samstarfsaðilum VMÍ.

Þá fóru stjórnarmenn yfir endurskoðaða reikninga VMÍ fyrir árið 1997.

Óskað var eftir að fyrir næsta fundi lægi yfirlit yfir stöðu reikninga á þessu ári svo og yfirlit yfir greiðslur úr ríkissjóði v. framkvæmda skv. samningi.

2. Rætt um aðstæður í sambandi við mótahald sem nú er til staðar á Akureyri í skauta og skíðaíþróttum.
Fundarmenn lögðu áherslu á að vinna þyrfti markvisst að að því að bæta þessa aðstöðu.

3. Magnús Finnson gerði grein fyrir stöðu skautamála á Akureyri með tilliti til ákvörðunar bæjarstjórnar Akureyrar um að hefja viðræður við Skautafélag Akureyrar um byggingu yfir skautasvell félagsins.

Í því sambandi var bent á 5. gr. í reglugerð um Vetraríþróttamiðstöð Íslands á Akureyri um það hlutverk stjórnar hennar að vera til ráðgjafar uppbyggingu mannvirkja fyrir VMÍ.

4. Skólanefnd VMÍ: Stjórn VMÍ leggur áherslu á að skólanefnd VMÍ hraði umræðum og undirbúningi undir stofnun skíðabrautar við Verkmenntaskólann á Akureyri.

5. Lögð fram ný drög að merki fyrir VMÍ. Framkvæmdastjóra falið að vinna frekar að málinu.

6. Skýrsla um ráðstefnu VMÍ 1997: Ennþá hafa ekki borist öll þau erindi sem flutt voru á ráðstefnu VMÍ um vetraríþróttir , sem haldin var í nóvember s.l. og óskað var eftir að bærust stjórninni strax eftir ráðstefnuna.

Framkvæmdastjóra falið að gefa fyrirlesurum sem eiga eftir að skila nokkurra daga frest og ganga síðan frá skýrslunni fyrir næsta fund hvort sem öll erindin hafa borist eða ekki.

7. Útbreiðslumál: Form. stjórnar vakti máls á útbreiðslumálum sem VMÍ skal standa að skv. reglugerð. Upplýst var að nokkuð hefði verið um kynningu á vetraríþróttum fyrir fatlaða og stóð VMÍ m.a. fyrir sýningu í Hlíðarfjalli í tengslum við Skíðamót Íslands sem fram fór á Akureyri 3. – 6. apríl s.l. á hjálpartækjum til að auðvelda fötluðum að stunda vetraríþróttir auk þess sem sýnd var meðferð þeirra.

Rætt um útbreiðslumál skautaíþróttarinnar en fyrirsjáanlega verða ekki byggð skautahús nema á Reykjavíkursvæðinu og Akureyri í næstu framtíð, en án þeirra er vart hægt að sjá fyrir sér aukna þátttöku í skautaíþróttinni.

Framkvæmdastjóra falið að afla upplýsinga um ódýr hús eða skemmu sem hentuðu fyrir yfirbyggð skautasvell.

Fleira ekki fyrir tekið
Fundi slitið kl. 12.30