Fundur 16

Stjórn VMÍ: Fundur nr. 16
Ár 1998 mánudaginn 19. oktober var haldinn í stjórn VMÍ að Geislagötu 9 og hófst kl. 16.00.

Mættir voru eftirtaldir stjórnarmenn: Þórarinn E. Sveinsson, Tómas Ingi Olrich, Ellert B. Schram, Steingrímur Birgisson, Þröstur Guðjónsson og Magnús Finnsson auk framkvæmdastj. stjórnar VMÍ Hermanns Sigtryggssonar.

Formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna, þá sérstaklega gesti fundarins Gísla Kristinsson, arkitekt og Kristinn Svanbergsson, framkvæmdastjóra SKÍ, lagði síðan fram dagskrá fundarins og skýrði hana.

1. Lögð fram fjárhagsáætlun VMÍ fyrir árið 1998 eftir leiðréttingar sem gerðar voru á henni við endurskoðun fjárhagsáætlunar Akureyrarbæjar fyrir þetta ár.

2. Tekið fyrir bréf frá íþrótta og tómstundafulltrúa Akureyrar dags. 5. oktober 1998 þar sem hann óskar eftir því við stjórn VMÍ að hún fari yfir og komi með ábendingar sínar varðandi hönnunarforsögn að skautahöll á Akureyri. Hönnunarforsögn þessi, gerð af Arkitektastofunni í Grófargili ehf. fylgdi með bréfi íþrótta og tómstundafultrúa.

Formaður greindi frá erindinu og gat um í nokkrum orðum viðskipti stjórnar VMÍ, Skautafélags Akureyrar og bæjaryfirvalda um yfirbyggt skautasvell á Akureyri, en gaf síðan Gísla Kristinssyni orðið, en hann er höfundur að hönnunarforsögninni.

Gísli fór yfin hönnunarforsögnina lið fyrir lið, en hún er 15 síður á A4 pappír, sýndi nokkrar glærur af Finnskum íþróttahúsum í byggingu og fullbyggð og svaraði síðan fyrirspurnum og athugasemdum sem fram komu.

Miklar umræður voru um málið. Létu menn ánægju sína í ljós með framlagða hönnunarforsögn að skautahöll. Í sambandi við kostnaðartölur og hvað fælist í þeim töldu fundarmenn hæpið að slá af kröfum um gæði yfirbyggingar í einangrun og vörnum gegn rakaþéttingu utanfrá, lýsingu, loftræsingu, hljóðvist, yfirborðsefnum og öðrum frágangi, en töldu að miða ætti stærð skautahallar á Akureyri við 600 áhorfendur ef það gæti að öðru leyti samræmst húsrýmisáætluninni.

Formaður þakkaði Gísla fyrir góðar upplýsingar og síðan vék Gísli af fundi.

3. Tekin fyrir greinargerð skólanefndar VMÍ um skíðaval við Verkmenntaskólann á Akureyri.

Undir þessum lið gaf formaður Kristni Svanbergssyni orðið, en Kristinn er einn af nefndarmönnum í skólanefndinni ásamt Margréti Baldvinsdóttur, Hinrik Þórhallssyni, Þresti Guðjónssyni og Hermanni Sigtryggssyni.

Rakti Kristinn í nokkrum orðum störf nefndarinnar frá því hún kom fyrst saman 1. febrúar 1997, en frá þeim tíma hefur nefndin alls haldið 11 fundi . Í fyrstu var megin-

áhersla lögð á gagnasöfnun, bæði innanlands og erlendis frá. Haldnir voru fundir með stjórnendum Verkmenntaskólans á Akureyri og nefndarmenn hafa átt viðræður við fjölmarga aðila bæði innlenda og erlenda.

Kristinn fór yfir skýrslu nefndarinnar sem er í þrem köflum: a) Greinargerð, b) markmið, inntökuskilyrði og skipulag og c) kostnaðaráætlanir.

Sérstaklega var tekið fyrir og rætt um kostnaðartölur bæði hvað varðar stofn og rekstrarkostnað. Athugasemdum og fyrirspurnum svöruðu Kristinn Svanbergsson, Þröstur Guðjónsson og Hermann Sigtryggsson.

Formaður þakkaði Kristni fyrir komuna og skólanefnd fyrir skýrsluna.

Samþykkt að send skýrsluna til stjórnar Skíðasambands Íslands til umsagnar og frekari ákvörðunar um framhald málsins.

Kristinn vék síðan af fundi.

Ellert B. Schram vék af fundi kl. 17.45

4. Málefni Skíðastaða.
Framkvæmdastjóri greindi frá framkvæmdum við Skíðastaði, en þær eru m.a. að allmikið svæði í brekkunum norðan stólalyftu hefur verið sléttað og hafa starfsmenn Skíðastaða gert það með snjótroðurunum. Þetta land er auðunnið með þessum tækjum þar sem jarðvegur er aðallega mold og stórgerðar þúfur. Sáð verður í þessi flög næsta vor.

Hinn 15. ágúst í sumar kom hingað fulltrúi Alþjóða skíðasambandsin(FIS), Hermut Björkestöl, og tók út 5 km. og 7.5 km. göngubrautir í Hlíðarfjalli. Hann mun senda niðurstöður sínar til FIS sem gengur frá því hvort brautirnar verða samþykktar fyrir alþjóðakeppni í göngu.

Björkestöl sagði að brautirnar á Aklureyri uppfylltu alla staðla FIS og því má ætla að gögn þ.a.l. berist þaðan von bráðar.

Nú stendur yfir undirbúningur vegna tilraunar með snjógerðarvél við Hólabraut í Hlíðarfjalli. Nokkuð hefur tafið undirbúninginn að breyta þurfti rafmagnsspenni í Hjallabraut til þess að hægt verði að tengja snjógerðarvélina við hann, en hún notar 380 v. spennu.

Þá stendur yfir lokaátak við að fullgera þriggja km. ljósabraut fyrir skíðagöngu í Hlíðarfjalli, en að því verki hafa staðið sjálfboðaliðar úr Skíðaráði Akureyrar með aðstoð starfsmanna Skíðastaða, Rafveitu Akureyrar og Málmsmíðadeildar Verkmenntaskólans á Akureyri.

5. Tekið fyrir bréf frá Skíðaráði Akureyrar dags. 12 okt. 1998 varðandi forgangsröðun framkvæmda í Hlíðarfjalli, ásamt afriti af bréfi ráðsins til bæjarstjórnar Akureyrar dags. 28. sept. 98. og með því teikningar og kostnaðaráætlun vegna nýrrar Strýtu í Hlíðarfjalli.

Um leið og ráðið lýsir, í bréfi sínu til stjórnar VMÍ, yfir ánægju sinni með fjárveitingu til Skíðastaða af ráðstöfunarfé miðstöðvarinnar á næstu árum þá vill Skíðaráð Akureyrar kynna stjórnarmönnum VMÍ hug SRA varðandi forgangsröðun verkefna í Hlíðarfjalli.

Ma. kemur fram í bréfinu að efst á óskalista ráðsins er bygging nýrrar Strýtu á næsta sumri. Strýta sé verulega farin að gefa sig og fullnægi ekki kröfum tímans skv. því hlutverki sem henni er ætlað að þjóna.

Um leið og fundarmenn létu í ljós ánægju sína með bréf SRA, var bent á forgangsröðun Íþrótta og tómstundaráðs Akureyrar á verkefnum í Hlíðarfjalli 1998 - 2002, þar sem ný Strýta er á listanum á árinu 1999.

Tómas Ingi Olrich vék af fundi kl. 18.30

6. Lagt fram til kynningar
Plakat og spátölur um byggingu svifbrautar í Hlíðarfjalli.

Tillögur að merki fyrir Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands.

7. Framlag til VMÍ frá menntamálaráðuneytinu á yfirstandandi ári er kr. 1o milljónir. Úthlutað hefur verið til Skíðastaða kr. 8 milljónum og ákveðið að setja kr. 2 milljónir á biðreikning.

8. Önnur mál:

Þöstur Guðjónsson greindi frá hugmyndum ÍBA um vetraríþróttahátíð á Akureyri árið 2000.

Þórarinn E. Sveinsson upplýsti fundarmenn um það að líklega kæmi umsókn frá Íþróttasambandi fatlaðraum styrk til að senda mann til USA í kynnisferð um vetraríþróttir fatlaðra.

Stefnt að næsta fundi stjórnar VMÍ síðari hluta november.

Fleira ekki fyrir tekið
Fundi slitið kl 19.30