Fundur 17

Stjórn VMÍ: Fundur nr. 17
Ár 1998 fimmtudaginn 19. nóvember var fundur haldinn í stjórn VMÍ í húsakynnum ÍSÍ í Reykjavík og hófst kl. 12.00.

Mættir voru eftirtaldir stjórnarmenn: Þórarinn E. Sveinsson, Tómas Ingi Olrich, Benedikt Grímsson, Steingrímur Birgisson og Magnús Finnsson auk framkvæmdastj. stjórnar VMÍ Hermanns Sigtryggssonar.

Formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna, þá sérstaklega gest fundarins Önnu Karolínu Vilhjálmsdóttur, framkvæmdastjóra íþrótta og útbreiðslusviðs Íþróttasambands fatlaðra, lagði síðan fram dagskrá fundarins og skýrði hana.

1. Anna Karolína var mætt til fundar vegna umsóknar sambandsins um styrk til upplýsinga og kynningarverkefnis á vegum Íþróttasambands fatlaðra um vetraríþróttir fatlaðra.

Anna greindi frá aðdraganda að framangreindu verkefni, en skriður kom á þetta mál eftir heimsókn Paul Speight frá Aspen í Colorado á ráðstefnu VMÍ um vetraríþróttir í fyrra. Þar hélt Paul athyglivert erindi um vetraríþróttir fatlaðra og sýndi ýmis hjálpartæki sem auðvelda fötluðu fólki að taka þátt í íþróttum sem fara fram í skíðabrekkum og á skautasvelli. Paul er sjálfur fatlaður og daglega bundinn við hjólastól. Hann stjórnar m.a. fyrirtæki sem býr til hjálpartæki fyrir fatlað fólk. Sjálfur er hann mikill áhugamaður um vetraríþróttir fyrir fatlaða og á ráðstefnunni sýndi hann videomyndir af fötluðu fólki sem stundaði vetraríþróttir af ótrúlegri leikni.

Anna sagði frá því að boð hefði borist frá Aspen um að Ísland muni njóta sérstaks stuðnings vegna uppbyggingar vetraríþrótta fatlaðra hér á landi. Stuðningurinn felst m.a. í því að bjóða flt. frá Íslandi að vera með í skipulögðu starfi með skíðaþjálfurum og leiðbeinendum fatlaðs fólks, kynningu á ýmsum nýjungum ss. við þjálfun, nýjum hjálpartækjum fyrir fatlaða, uppbyggingu skíðamannvirkja og svæða, og aðgengi fatlaðra að því, lyftubúnaði sem hentaði fyrir fatlaða, námskeiðum um stjórnun og skipulag auk þess kynning á almennum skíðastað, sem í þessu tilfelli er Aspen í Colorado en hann er meðal fremstu skíðastaða í heiminum.

Anna lét í ljós miklar væntingar um samstarf milli ÍF og samtaka fatlaðra í Bandaríkjunum og lýsti einnig ánægju sinni með það samstarf sem þegar er hafið milli ÍF og VMÍ en s.l. vetur hófst það m.a. með útvegun á hjálpartækjum fyrir fatlaða frá Bandaríkjunum, auk þess sem staðið var að kynningu þeirra í sambandi við Skíðamót Íslands sem haldið var á Akureyri í apríl s.l.

Auk viðskiptanna við Paul Speight og hans fólk fyrir vestan greindi Anna frá hugmyndum um samstarf við norðurlandaþjóðirnar um þessi mál en þar er mikil þekking á hverskonar íþróttum fyrir fatlaða og þar er einnig vilji fyrir samstarfi við Ísland.

Frekari framtíðaráætlanir um vetraríþróttir fyrir fatlaða verða teknar fyrir hjá stjórn ÍF

þegar fyrsta verkefninu í samvinnu við bandaríkjamenn er lokið

Anna svaraði að lokum fyrirspurnum fundarmanna. Formaður þakkaði henni komuna og fróðlegar upplýsingar og vék Anna síðan af fundi.

2. Tekin fyrir umsókn frá Íþróttasambandi Fatlaðra um styrk til þess að senda mann til náms í tvo mánuði til Bandaríkjanna til þess að kynna sér vetraríþróttir fyrir fatlað fólk.

Ákveðið að veita kr. 350.000.- til verkefnisins.

3. Tekið fyrir bréf frá bæjarstjórn þar sem óskað er eftir tilnefningu fulltrúa frá stjórn VMÍ í verkefnislið fyrir skautahús á Akureyri.

Stórn VMÍ tilnefnir Steingrím Birgisson sem sinn fulltrúa í verkefnisliðið.

4. Tekið fyrir bréf frá bæjarráði Akureyrar þar sem erindi Skíðaráðs Akureyrar um byggingu nýrrar "Strýtu" er sent stjórn VMÍ til kynningar..

Stjórn VMÍ þakkar bréfið og vísar til fundargerðar stjórnar VMÍ no.16 frá 19. oktober um sama mál.

5. Að munnlegri beiðni formanns Íþróttabandalags Akureyrar var tekið fyrir bréf frá Íþróttabandalagi Akureyrar til stórnar ÍSÍ þar sem kvatt er til þess að myndarleg Vetraríþróttahátíð í nafni ÍSÍ verði haldin á Akureyri árið 2000.

Stjórn VMÍ tekur undir óskir ÍBA og bendir í því sambandi á þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á Akureyri við skautasvell SA og mannvirki í Hlíðarfjalli.

Loforð um fé til framkvæmda við "Skautahús" á Akureyri og frekari uppbyggingu í Hlíðarfjalli hefur verið gefið af hálfu stjórnar VMÍ, og væntir hún þess að það geti komið fyrirhugaðri Vetraríþróttahátíð til góða.

6. Stjórnarmönnum VMÍ boðið að vera viðstöddum þegar ný upplýst göngubraut verður tekin í notkun í Hlíðarfjalli n.k. laugardag. 21. nóvember "98 kl. 18.00.

7. Að loknum fundi gefst fundarmönnum kostur á að skoða Skautahöllina í Laugardal undir stjórn Hilmars Björnssonar, forstöðumanns Skautahallarinnar og Kolbeins Kolbeinssonar, verkfræðing hjá Ístak , sem sá um byggingu Skautahallarinnar.

Fleira ekki fyrir tekið
Fundi slitið kl. 13.30