Fundur 18

Stjórn VMÍ: Fundur no. 18.
Ár 1999 miðvikudaginn 10. mars var fundur haldinn í stjórn VMÍ að Geislagötu 9 og hófst kl. 15.00.

Mættir voru eftirtaldir stjórnarmenn: Þórarinn E. Sveinsson, Steingrímur Birgisson, Þröstur Guðjónsson og Magnús Finnsson auk framkvæmdastj. stjórnar VMÍ Hermann Sigtryggsson.
Tómas Ingi Olrich og Benedikt Geirsson boðuðu forföll og það gerðu varamenn þeirra einnig þau Margrét Baldvinsdóttir og Ellert B. Schram.

Formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna, þá sérstaklega gest fundarins Eirík B. Björgvinsson, íþrótta og tómstundafulltrúa Akureyrar.

Þetta gerðist:

1. Þórarinn E. Sveinsson ræddi um starfsemi Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands, hvaða mál hefðu verið efst á baugi hvað væri að gerast og síðan framtíðarstefnu hennar með tilliti til þeirrar reynslu sem fengist hefur frá því stöðin tók til starfa 19 í mars 1995.

Lagði hann til eftir nokkrar umræður að boðað yrði til vinnufundar um þetta mál dagana 22. eða 23. mars. Framkvæmdastjóra falið að útvega fundarpláss og boða aðalmenn og varamen í stjórn VMÍ til fundar á þessum tíma.

2. Borist hefur bréf frá stjórn Skíðasambands Íslands dags. 28. janúar 1999, þar sem stjórn VMÍ er þökkuð þau viðbrögð sem stjórnin sýndi erindi sambandsins, er varðaði uppbyggingu skíðabrautar við Verkmenntaskólann á Akureyri svo og skólanefnd VMÍ fyrir greinargóða skýrslu um undirbúningsvinnu þ.a.l. Hvetur Skíðasambandið VMÍ og skólanefndina til áframhaldandi undirbúnings að þessu máli.

Framkvæmdastjóra falið að kynna viðkomandi aðilum skýrslu skólanefndar og þá fyrst og fremst stjórnendum Vermenntaskólans á Akureyri. Einnig var honum falið að óska eftir áframhaldandi starfi skólanefndar.

Í skólanefndinni voru Þröstur Guðjónsson, Margrét Baldvinsdóttir, Kristinn Svanbergsson, Magnús E. Finnsson og Hermann Sigtryggsson.

3. Eiríkur B. Björgvinsson, Magnús Finnsson og Steingrímur Birgisson greindu frá stöðu mála um byggingu skautahallar á Akureyri, en þessir menn eiga allir sæti í starfshóp er vinnur að undirbúningi hennar.

Helstu tímasetningar eru eftirfarandi:
Alútboð - Gögn send 4. mars 1999
Kynningarfundur 9. mars 1999
Opnun tilboða 9. apríl 1999
Undirritun verksamnings 16. apríl 1999
Húsið hæft til skautaæfinga 15. okt. 1999
Húsi að fullu lokið 31. janúar 2000
Lóð lokið. Verklok 30. júní 2000

Eiríkur B. Björgvinsson kynnti vinnu verkefnahópsins og stöðu mála varðandi byggingu Skautahallarinnar og lagði fram afstöðumyndir af svæðinu
Fundarmenn lýstu ánægju sinni yfir því hversu langt málið væri komið og hvöttu til þess að vel yrði vandað til verksins.

4. Í framhaldi af umræðum Íþrótta og tómstundaráðs um byggingu nýrrar Strýtu við aðalkeppnissvæði alpagreina í Hlíðarfjalli greindi Eiríkur frá endurskoðaðri framkvæmdaáætlun Íþrótta og tómstundaráðs í Hlíðarfjalli fyrir árin 1999 - 2001 sem hljóðar svo:

1999 Ný Strýta                      20.000.000.-
Búnaður v. Æfinga og kennslu  1.000.000.-
Slétta brekkur                         1.000.000.-
Flóðljós                                  1.500.000.-
Malbikun á bílastæðum           3.000.000.-
Skipulagsmál                            700.000.-
2001 Lyfta í Hjallabraut          30.000.000.-
Búnaður til snjóframleiðslu       5.000.000.-

Nú er verið að vinna að undirbúningi byggingar nýrrar Strýtu og taldi Eiríkur að ef áætlanir stæðust ætti hún að vera risin fyrir áramótin 1999-2000.

Eiríkur greindi einnig frá því að ráðgert væri að Vetraríþróttahátíð ÍSÍ færi fram á Akureyri næsta vetur og kæmi sér avar vel að Skautahöll og ný Strýta væru þá komin í gagnið.

5 Þröstur Guðjónsson gaf skýrslu um námsför sem hann fór í til Aspen í Colorado USA, en þar dvaldi hann rúmlega tvo mánuði fyrir og eftir síðustu áramót. Sótti hann námskeið fyrir leiðbeinendur í vetraríþróttum fyrir fatlaða auk þess sem hann starfaði á skíðastað fyrir fatlað fólk. Þröstur sýndi bæði ljósmyndir á myndvarpa og kvikmyndir frá starfinu á þessum stað. Hann kynnti sér einnig almennan rekstur skíðastaða og þá sérstaklega rekstur þeirra í sambandi við fatlaða viðskiptavini. Fannst Þresti mikið til koma hvað vel var að fötluðum búið á þessum stöðum svo og um þær góðu móttökur og fyrirgreiðslu sem hann fékk hvarvetna þarna vestra. Þá þakkaði hann stjórn VMÍ og Íþróttasambandi fatlaðra fyrir veittan stuðning vegna þessarar námsferðar sinnar.

Formaður þakkaði góða skýrslu Þrastar og óskaði eftir að hún kæmi skrifleg til stjórnar VMÍ.

6. Í framhaldi af skýrslu Þrastar var ákveðið og leita eftir samvinnu við Íþróttasamband fatlaðra og Skíðastaða um að koma á námskeiði fyrir leiðbeinendur fatlaðs fólks í Hlíðarfjalli í byrjun apríl. Framkvæmdastjóra VMÍ og Þresti falið að annast undirbúning og framkvæmd námskeiðsins.

7. Reikningar Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands fyrir árið 1998 lagðir fram og samþykktir. Verða þeir sendir aðilum sem standa að VMÍ.

8. Lögð fram tillaga að merki og heimasíðu VMÍ. Var gerður góður rómur að hvorutveggja og framkvæmdastjóra falið að láta útfæra þetta og leggja fyrir næsta fund.

9. Lagt fram uppkast að reglum fyrir skíðafólk í skíðabrekkum og starfsmenn skíðalyfta, sem Erlingur Jóhannesson, íþróttafulltrúi í Reykjavík hefur tekið saman. Óskaði hann eftir samvinnu við útgáfu þessara reglna. Því var vel tekið og tók Eiríkur B. Björgvinsson, íþrótta og tómstundafulltrúi við málinu af hálfu Akureyrar.

Fleira ekki fyrir tekið
Fundi slitið kl. 17.45