Fundur 19

Stjórn VMÍ: Fundur no. 19.
Ár 1999 þriðjudaginn 23. mars var fundur haldinn í stjórn VMÍ að Geislagötu 9 og hófst kl. 10.00. Til þessa fundar voru allir aðalmenn og varamenn í stjórn VMÍ boðaðir.

Mættir voru eftirtaldir stjórnarmenn: Þórarinn E. Sveinsson, Tómas Ingi Olrich, Steingrímur Birgisson, Þröstur Guðjónsson, Ellert B. Schram og Magnús Finnsson auk framkvæmdastj. stjórnar VMÍ Hermann Sigtryggsson.
Benedikt Geirsson boðaði forföll og það gerðu einnig varamenn í stjórn þau Margrét Baldvinsdóttir og Oddur Halldórsson. Kristján Eldjárn var erlendis.

Formaður setti fund og bauð fundarmenn og gest fundarins, Eirík B. Björgvinsson, íþrótta og tómstundafulltrúa, velkomna.Hann greindi frá því að aðeins eitt mál væri á dagskra, stefnumótun fyrir Vetraríþróttamiðstöð Íslands.

Formaður lagði fram nokkrar dagsetningar í sögu VMÍ, þar sem getið er þess helsta sem gerst hefur frá því að starfsemi þessa fyrirtækis hófst í mars 1995, ræddi um reglugerð fyrir VMÍ, samninga um fjárframlög ríkis og bæjar til starfseminnar, nýjar hugmyndir um rekstur þess og nánari samvinnu við stjórnendur vetraríþróttamannvirkja á Akureyri. Hann bað fundarmenn að láta sínar skoðanir í ljós um hvernig til hefði tekist á undanförnum árum og hvað mætti betur fara. Æskilegt væri að hafa opna og líflega umræðu um þau fjölbreyttu mál sem stjórn VMÍ væri að fást við í dag og síðan spá í framtíðina og móta stefnu til lengri tíma. Síðan gaf hann orðið laust.

Eiríkur B. Björgvinsson tók fyrstur til máls og reyfaði hugmyndir um framtíð og rekstrarfyrirkomulag Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands svo og rekstur vetraríþróttamannvirkja á Akureyri og samvinnu á milli þessara fyrirtækja. Gat hann þess að nú stæðu yfir samningar um rekstur Skautahallarinnar á Akureyri og tilvalið væri á þessu stigi málsins að koma með hugmyndir að þeim rekstri og tengslum skautahallarinnar við önnur mannvirki og stofnanir sem tengdust að Vetraríþróttamiðstöð Íslands. Þá spurðist Eiríkur fyrir um stærri skíðamót í Hlíðarfjalli sem honum findist fá á þessum vetri.

Ellert Schram gat þess að Akureyri hefði þegar fengið viðurkenningu sem miðstöð vetraríþrótta á Islandi og ÍSÍ hefði tekið afstöðu um það á sínum tíma. Það væri hins vegar skíðasambandsins að ráðstafa stærri mótum þám. Skíðamóti Íslands osfrv.

Tómas Ingi Olrich sagði að skv. reglugerð um VMÍ þá væri rekstur vetraríþróttamannvirkja í höndum heimamanna og stjórn VMÍ kæmi þar ekki nærri. Hlutverk VMÍ væri að veita stuðning við uppbyggingu og aðstöðu, auk þess sem stofnunin hefði fræðsluhlutverki að gegna. Hugsanlegt væri að stjórn VMÍ gæti veitt ráðleggingar um þjónustu og rekstur.

Þröstur Guðjónsson taldi að leggja beri mikla áherslu á útbreyðslustarf í sambandi við almenna þátttöku fatlaðra í vetraríþróttum, og að sem víðast verði komið upp hjálpartækjum og þekking til þess að þjóna þessum hópi. Gat hann um kaup VMÍ á hjálpartækjum fyrir fatlaða og væntanlegt námskeið á vegum VMÍ og ÍF fyrir leiðbeinendur í vetraríþróttum fatlaðra hér á Akureyri í næsta mánuði.

Í sambandi við umræður um gervisnjó og tilraunir sem gerðar hafa verið á nokkrum stöðum á landinu vakti Steingrímur Birgisson máls á því að VMÍ ætti að koma að þessum málum með skipulögðum tilraunum á þessum vettvangi, t.d. í samvinnu við Vatnsveitu Akureyrar. Niðurstöður mætti svo senda skíðastöðum um allt land.

Hann lagði til að talað væri við forráðamenn vatnsveitunnar um þetta mál.

Magnús Finnsson sem er starfsmaður hjá Hita og Vatnsveitu Akureyrar taldi að auðvelt væri að gera þessa tilraun á Akureyri en þetta kostaði allmikla peninga. Tók hann undir orð Steingríms um að þetta yrði kannað nánar.

Miklar umræður urðu um framtíðarstefnu VMÍ, skipulagsmál, ráðgjöf og faglega yfirstjórn mannvirkja á Akureyri, frekari samninga við ríki og bæ ofl.

Þá var lagt fyrir fundinn ýmsar teikningar og uppdrættir af framkvæmdum við vetraríþróttamannvirki á Akureyri svo sem Skautahöll og nýrri Strýtu, þjónustuhúsi í Hlíðarfjalli. Þá er verið að vinna að heildarskipulagi í Hlíðarfjalli hjá skipulagsstjóranum á Akureyri og greint var frá stöðu mála við undirbúningsvinnu ofl. v. byggingar svifbrautar upp á Hlíðarfjall.

Lögð fram teikning af merki fyrir VMÍ gerð af Sumarliða Daðasyni og var það samþykkt sem merki vetraríþróttamiðstöðvarinnar.
Jafnframt var kynnt heimasíða VMÍ á netinu.

Fleira ekki fyrir tekið
Fundi slitið kl. 13.30