Fundur 2

Stjórn VMÍ: Fundur nr. 2
Ár 1996 föstudaginn 9. febrúar var fundur haldinn í stjórn Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands að Hótel KEA og hófst hann kl. 13.30.

Mættir voru eftirtaldir stjórnarmenn: Þórarinn E. Sveinsson, Tómas Ingi Olrich, Steingrímur Birgisson, Ellert B. Schram og Þröstur Guðjónsson auk Hermanns Sigtryggssonar sem verður starfsmaður stjórnarinnar.

Þetta gerðist:

1.
Formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna. Fór hann m.a. yfir þau verkefni sem lögð voru fyrir síðasta fund og hvar á vegi þau væru stödd:

a) Ráðning starfsmanns: Þórarinn greindi frá viðræðum hans við Hermann Sigtryggsson og samkomulagi um að hann gerðist starfsmaður stjórnarinnar í hálfu starfi frá 1. mars 1996.

Samþykkt. Hermann byrjar formlega í starfi hinn 1. mars n.k.

b) Fyrirkomulag á eignaraðild mannvirkja: Þórarinn greindi frá viðtölum við bæjarstjóra um þessi mál, sem taldi að bærinn væri opinn fyrir því að íþróttamannvirki á Akureyri sem notuð eru til vetraríþrótta væru í eigu bæjarins. Þá var einnig upplýst að Skautafélag Akureyrar sé reiðubúið til viðræðna um þessi mál með ákveðnum skilyrðum.

Samþykkt að halda þessum viðræðum áfram.

c) Tómas Ingi greindi frá viðræðum sínum við menntamálaráðherra um þátt ríkis í málefnum VMÍ. Kom þar fram að ráðherra er reiðubúinn að hefja viðræður um þau mál og væntir erindis þar að lútandi. Lagði Tómas til að ráðherra yrði sent bréf þar sem farið yrði fram á viðræður um gerð samnings milli ríkisins og stjórnar VMÍ um þátttöku ríkisins í starfsemi og uppbyggingu Vetraríþróttamiðstöðvarinnar.

Tómas lagði áherslu á að þegar gengið yrði til þeirra viðræðna yrði að liggja fyrir hugmyndir Akureyrarbæjar og áætlun stjórnar VMÍ um uppbyggingu vetraríþróttaaðstöðu á Akureyri, þar sem kæmi fram forgangsröðun verkefna. Lagði hann áherslu á að sem fyrst yrði lokið við slíka áætlun.

Tómas greindi frá því að hann hefði orðið var við umfjöllun um Vetraríþróttamiðstöð Íslands á þeim forsendum að ríkið hefði með tilkomu VMÍ tekið yfir rekstrar-og stofnkostnað við skíðamannvirki á Akureyri. Hann sagði svo rammt hafa kveðið að þessu að hann hefði séð sig nauðbeygðan til að ræða við bæjarstjóra Akureyrar og rifja upp þær hugmyndir og umræður sem mótaðar voru, þegar stofnun Vetraríþróttamiðstöðvarinnar var í undirbúningi. Þá var um það rætt að Akureyrarbær héldi áfram þeirri uppbyggingu vetraríþróttaaðstöðu sem hann hefði unnið á undanförnum áratugum, og yrði einn ábyrgur fyrir rekstri. Hins vegar kæmi ríkið með stofnframlög, eins og ákveðið væri í fjárlögum hverju sinni, og yrðu þau væntanlega skoðuð sem styrkur til uppbyggingarinnar. Ekki hefði komið fram á fundi bæjarstjóra með Tómasi Inga neinn ágreiningur um þetta efni.

Þessi skilningur á aðdraganda málsins og undirbúningi var staðfestur af stjórn VMÍ.

2.
Ellert B. Schram gaf greinargott yfirlit yfir fyrirkomulag sem verið hefur á rekstri Íþróttamiðstöðvar Íslands á Laugarvatni undanfarin ár. Taldi hann rekstrarformið þar vera þungt í vöfum og hefði hingað til ekki reynst vel. Allt útlit er fyrir að ÍSÍ, sem er einn af rekstraraðilum miðstöðvarinnar, verði með sína eigin starfsemi á Laugarvatni nk. sumar, en enginn rekstur er hjá Íþróttamiðstöðinni nú í vetur.

3.
Lögð fram hugmynd að fjárhagsáætlun fyrir rekstur Vetraríþróttamiðstöðvarinnar 1. mars - 31. des. 1996. Hljóða niðurstöðutölur upp á kr. 2.5 milljónir. Eftir umræður og nokkrar breytingar hækkaði hún í kr. 3.0 millj. og var ákveðið að kynna þessa áætlun aðstandendum VMÍ .

4.
Hermann Sigtryggsson gaf yfirlit yfir stöðu mála í rekstri og uppbyggingu að Skíðastöðum, sem er í eigu Akureyrarbæjar og hjá Skautafélagi Akureyrar sem á og rekur eina skautasvæðið í bænum.

Í umræðum kom fram að nauðsyn er á miklu átaki í uppbyggingu íþróttamannvirkja hjá þessum aðilum.

5.
Ákveðið að gerð verði úttekt á því sem þegar er fyrir hendi af íþróttamannvirkjum og tækjum sem notuð eru til vetraríþrótta, auk þess sem gerð verði greinargerð um frekari uppbyggingu mannvirkja og tækjakost sem nauðsynlegur er til reksturs vel búinnar vetraríþróttamiðstöðvar á Akureyri.

Formanni og væntanlegum starfsmanni falið að leggja þessi gögn fram á næsta fundi ef þess er kostur.

6.
Ákveðið að nú þegar verði bæjaryfirvöldum á Akureyri og menntamálaráðherra sent bréf þar sem óskað verði eftir fundi fulltrúa þessara aðila með formanni, varaformanni og framkvstj. stjórnar VMÍ um málefni miðstöðvarinnar.

Á þeim fundi verði tekin fyrir mál er varði samskipti þeirra sem aðilar eru að VMÍ

og þar liggi fyrir drög að fjárhagsáætlun, þar sem komi m.a. fram að ríki og bær standi rekstri skrifstofu VMÍ, greinargerð og úttekt sbr. það sem komið hefur fram hér á fundinum.

7.
Rætt um samskipti við skóla og aðra aðila sem vinna að fræðslumálum, almenningsíþróttum, keppni og öðrum þeim málum er varða VMÍ, samskipti stjórnar VMÍ við heimamenn og viðhorf þeirra til hennar, námskeiða og ráðstefnuhald ofl. Töldu fundarmenn æskilegt að ljúka fundi með flt. ríkis og bæjar áður en farið er út í frekari samskipti eða viðræður við aðra aðila.

Ákveðið að halda næsta fund 4. mars kl. 9.00 og boða þá einnig til fundar alla varamenn stjórnarinnar. Farið verði í skoðunarferð þar sem íþróttamannvirki verði skoðuð.

Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitið kl. 15.30.