Fundur 20

Stjórn VMÍ: Fundur nr. 20
Ár 1999 þriðjudaginn 18. maí var fundur haldinn í stjórn VMÍ að Geislagötu 9 og hófst kl. 16.00.

Mættir voru eftirtaldir stjórnarmenn: Þórarinn E. Sveinsson, Tómas Ingi Olrich, Benedikt Geirsson, Þröstur Guðjónsson og Magnús Finnsson auk framkvæmdastj. stjórnar VMÍ Hermanns Sigtryggssonar. Steingrímur Birgisson var erlendis og varamaður hans utanbæjar.

Formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna, lagði fram dagskrá fundarins og skýrði hana.

1. Skautahöll á Akureyri
Magnús Finnsson greindi frá frá því að föstudaginn 23. apríl 1999 hefðu verið opnuð tilboð í Skautahús við Naustaveg. Eftirfarandi tilboð bárust:
      Ístak h.f.     276.528.440.- kr.
      SJS verktakar     192.942.792.- kr.
      SJS verktakar, frávikstilboð     160.576.824.- kr.
      Arnarfell ehf.     244.348.245.- kr.
      Ármannsfell ehf.     268.175.707.- kr.

Tekið var lægsta tilboðinu sem var frávikstilboð SJS verktaka.
Stjórnarmenn létu í ljós ánægju yfir því hvað þetta mál væri komið á góðan rekspöl.

2. Vetraríþróttahátíð á Akureyri 20 00
Þröstur Guðjónsson greindi frá því að Vetraríþróttahátíð ÍSÍ yrði haldin á Akureyri í mars 2000. Ekki væri endanlega búið að ákveða dagsetningu eða dagsetningar, því verið getur að hátíðin standi yfir í lengri tíma en áður og þá með hléum á milli. Íþróttabandalag Akureyrar mun fljótlega taka ákvarðanir um skipun flt. í undirbúningsnefnd
Stj. VMÍ ákvað að tilnefna Hermann Sigtryggsson í nefndina frá VMÍ.

3. Skíðavalbraut við Verkmenntaskólann á Akureyri
Fundarmenn undruðust seinagang í undirbúningi skíðavalbrautar við VMA og óskuðu eftir því að framkvæmdastjóri og Þröstur Guðjónsson hefðu hið fyrsta samband við skólameistara VMA og kynntu honum skýrslu skólanefndar VMÍ og óskir stjórnarmanna í þessum efnum.

4. Bygging nýrrar Strýtu í Hlíðarfjalli.
Undir þessum lið ætlaði Eiríkur B. Björgvinsson, íþróta og tómstundafulltrúi að gefa stjórnarmönnum skýrslu um framgang mála, en hann er veikur. Hinsvegar lágu frammi gögn til skoðunar frá skipulagsstjóra um staðsetningu nýrrar Strýtu og frumdrög að skipulagi í Hlíðarfjalli.

5. Námskeið fyrir leiðbeinendur í vetraríþróttum fyrir fatlaðra:
Framkvæmdastjóri lagði fram greinargerð um námskeiðið sem fram fór í Hlíðarfjalli 10. og 11. apríl. Gekk það í alla staði vel.

6. Lögð fram tillaga að fjárhagsáætlun fyrir skrifstofu VMÍ fyrir árið 2000.
Stjórnarmenn samþykktu áætlunina fyrir sitt leyti og verður hún nú send samstarfsaðilum um rekstur VMÍ, en það eru: Akureyrarbær, menntamálaráðuneytið, Íþrótta og olympíusamband Íslands og Íþróttabandalag Akureyrar.

Fleira ekki fyrir tekið
Fundi slitið kl. 17:30