Fundur 21

Stjórn VMÍ: Fundur no. 21.
Ár 1999 mánudaginn 27. september var fundur haldinn í stjórn VMÍ í Skíðahótelinu í Hlíðarfjalli og hófst kl. 10.30

Mættir voru eftirtaldir stjórnarmenn: Þórarinn E. Sveinsson, Tómas Ingi Olrich, Benedikt Geirsson, Þröstur Guðjónsson og Magnús Finnsson auk framkvæmdastj. stjórnar VMÍ Hermanns Sigtryggssonar. Steingrímur Birgisson var erlendis og varamaður hans utanbæjar.

Formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna, lagði fram dagskrá fundarins og skýrði hana.

1. Framkvæmdir við Strýtu í Hlíðarfjalli.
Fyrst fóru fundarmenn upp í Strýtu þar sem verið er að byggja þjónustuhús fyrir skíðafólk. Leiðsögumaður var Ívar Sigmundsson. Hann greindi frá því að nýja Strýta væri 120 fermetrar að flatarmáli, steyptur kjallari og tvær hæðir úr timbri. Húsið er bjálkahús, innflutt tilsniðið frá Rússlandi. Efri hæðin er um 8o fermetrar og húsið alls 320 fermetrar.
Kjallarinn er ætlaður fyrir snyrtingar og geymslur, á fyrstu hæð er veitingasalur, eldhús og sölulúgur í sal og út og svo afgreiðsla fyrir Skíðaráðið ofl. sem eru með mót eða samkomur í Strýtu. Á efri hæðinni eru tímatökuherbergi, eldhúskrókur, skrifstofa, fundarherbergi og snyrting. Skíðaráð Akureyrar mun fá þessa hæð til umráða.
Verið er að klæða þak hússins og pússa kjallaraveggi og í þessari viku verða gluggar settir í húsið.

2. Að skoðun lokinni var farið í hádegisverð í Skíðahótelinu og voru þar auk stjórnarmanna þeir Ívar Sigmundsson og Óðinn Árnason en þeir hafa annast verkstjórn við byggingu nýju Strýtu í sumar.

Þar sýndi Ívar yfirlitskort af Hlíðarfjalli, reifaði framkvæmdaáætlanir í fjallinu og breytingar sem á þeim hafa orðið. Af öðrum framkvæmdum í fjallinu greindi hann frá því að svigbrekkur hefðu verið sléttaðar og búið væri að malbika bílastæðið næst Skíðahótelinu.

Fundi var fram haldið í Skíðahótelinu skv. dagskrá.

3. Lagt fram fjárhagsyfirlit yfir starfsemi VMÍ miðuð við 31. 7. 1999.

4. Fundargerðir skólanefndar VMÍ lagðar fram. Kom þar m.a.fram að fundur var haldinn með nýjum skólameistara VMA Hjalta Jóni Sveinssyni.
Sýndi hann málefninu mikinn áhuga og sendi eftir fundinn stjórninni hugmyndir um rekstur skíðabrautar við VMA.
Stjórn VMÍ samþykkti að fara þess á leit við Hjalta að hann geri rekstraráætlun fyrir skíðabraut við VMA.
Þresti Guðjónssyni og framkvæmdastjóra falið að hafa samband við skólameistara um þetta mál.

Í sambandi við fundargerðir skólanefndar kom fram ósk frá flt. skautamanna Magnúsi Finnssyni um að athugað yrði með skautavalbraut við VMA. Var fallist á að það yrði gert og framkvæmdastjóra falið að koma því á framfæri við viðkomandi aðila.

Lagðir fram minnispunktar frá fundi Tómasar Inga Olrich og Hermanns Sigtryggssonar með norskum manni að nafni Tor Stein Osland frá Larvík, en maður þessi var hér í heimsókn í sumar. Thor Stein er íþróttakennari við framhaldsskóla í Larvík og sér þar um íþróttaval sem boðið er upp á í hans skóla. Hann hefur einnig verið í nefndum sem undirbúa námsefni íþróttavalgreina í framhaldsskólum í Noregi.Gaf Thor Stein upplýsingar um starfið í Noregi og bauð fram aðstoð málinu til framdráttar hér á landi.

4. Framkvæmdastjóri greindi frá undirbúningi að snjógerð í Hamragili á skíðasvæði ÍR inga. Sótti hann fund, þangað sem fulltrúum frá öllum skíðastöðum á landinu var boðið til, í húsakynnum ÍSÍ í Reykjavík 29. júní 1999. Til fundarins boðaði umboðsmaður sænska snjógerðarvélafyrirtækisins Lenko á Íslandi Jón Halldórsson frá Dalvík og á fundinn mætti einnig starfsmaður Lenko í Bandaríkjunum, Guðmundur Jónsson.

Fundurinn snerist mest um hvað gert hefði verið á skíðastöðum á landinu til þess að búa til snjó með snjógerðarvélum frá Lenko, en tvær slíkar vélar eru í vörslu Jóns hér á landi. Gerðar hafa verið tilraunir með þessar vélar á Dalvík, Ísafirði, Reykjavík og á svæði ÍR í Hamragili.
Var lagt til á fundinum að þar sem starfsmenn Hamragils eru lengst komnir í þessum efnum yrði gerð alvöru tilraun þar í haust og vetur með Lenko vélina og féllust ÍRingar á að halda sínu verki áfram ef fé fengist til framkvæmda og vélin fengist að láni.
Munu ÍRingar gera skýrslu um niðurstöður tilraunarinnar og senda hana öllum skíðastöðum á landinu.

Í sambadi við undirbúning snjógerðar á Akureyri þá greindi Magnús Finnsson, sem er tæknifræðingur hjá Vatnsveitu Akureyrar, frá athugunum sem vatnsveitan hefur gert með tilliti til öflunar vatns í Hlíðarfjalli fyrir snjógerð. Sýndi hann á yfirlitskorti af Hlíðarfjalli uppsprettu sunnan stromplyftu og aðra (læk?) sunnan efri endastöðvar stólalyftu. Gefa þessar vatnslindir 30 sekúntulítra við venjulegar aðstæður. Taldi hann þær vel nýtanlegar til virkjunar fyrir snjógerðarvél.

5. Borist hefur bréf frá formanni vetraríþróttanefndar Íþróttasambands Fatlaðra þar sem þess er farið á leit við VMÍ að keyptur verði meiri búnaður til þess að auka það starf sem hefur verið að þróast í iðkun vetraríþrótta fatlaðra hér á landi

Bréfið er jafnframt greinargerð um þessi mál og þar er bent á að til þess að fatlaðir geti byrjað og verið virkir í vetraríþróttum þarf að skaffa viðeigandi búnað, ekki síst fyrir börn og unglinga.Þresti Guðjónssyni og framkvæmdastjóra falið að kanna möguleika á útvegun þessara tækja sem beðið er um og hvað þau muni kosta.

6. Skoðun framkvæmda við Skautahöll á Akureyri.

Að loknum fundi í Skíðahótelinu fóru fundarmenn niður í bæ þar sem verið er að byggja Skautahöll við Naustaveg í innbænum, en fyrsta skóflustungan þar var tekin 22. júní 1999. Leiðsögumenn voru Magnús Finnsson og Tryggvi Tryggvason, eftirlitsmaður með byggingaframkvæmdum.Þegar stjórnarmenn komu á byggingarstað var verið að slá upp og steypa andyri, geymslu fyrir snjóhefil og ganga frá breikkun ishokkyvallar. Búið er að steypa upp búningsklefa og undirstöður fyrir límtrésbita. Efni frá Finnlandi í höllina er allt komið og verður farið að reysa þakbitana næstu daga.

    Heildarstærð Skautahallarinnar er 30.371.000 rúmmetri
    Flatarmál er 3.232.50 fermetrar
    Mesta hæð er 13.05 metrar
    Áhorfendasvæði fyrir alls 600 manns
    Félagsaðstaða er 33 fermetrar.

Fleira ekki fyrir tekið
Fundi slitið kl. 14.30