Fundur 22

Stjórn VMÍ: Fundur no. 22.
Ár 2000 þriðjudaginn 4. janúar var fundur haldinn í stjórn VMÍ í Geislagötu 9 á Akureyri og hófst kl. 16.00

Mættir voru eftirtaldir stjórnarmenn: Jóhann G. Sigurðsson, Tómas Ingi Olrich, Þórarinn E. Sveinsson, Benedikt Geirsson og Þröstur Guðjónsson. auk framkvæmdastj. stjórnar VMÍ Hermanns Sigtryggssonar.

Formaður, Jóhann G. Sigurðsson setti fund og bauð fundarmenn velkomna, kynnti nýja stjórn í VMÍ og lagði fram bréf frá menntamálaráðuneytinu um skipan í hana.

Ný stjórn Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands er þannig skipuð.

Aðalmenn:
Jóhann G. Sigurðsson, formaður, tilnefndur af Akureyrarbæ,
Þórarinn E. Sveinsson, tilnefndur af Akureyrarbæ,
Benedikt Geirsson tilnefndur af Íþrótta-og Ólympíusambandi Íslands,
Þröstur Guðjónsson, tilnefndur af Íþróttabandalagi Akureyrar og
Tómas Ingi Olrich, varaformaður, skipaður án tilnefningar

Varamenn:
Óðinn Árnason, tilnefndur af Akureyrarbæ,
Helgi Snæbjarnarson, tilnefndur af Akureyrarbæ,
Ellert B. Schram, tilnefndur af Íþrótta-og Ólympíusambandi Íslands,
Magnús E. Finnsson, tilnefndur af Íþróttabandalagi Akureyrar og
Margrét Baldvinsdóttir, skipuð án tilnefningar.
Tómas Ingi Olrich óskaði, fh stjórnarmanna, nýjum formanni í stjórn VMÍ alls velfarnaðar

Þá lagði formaður fram dagskrá fundarins og skýrði hana.

1. Lagt fram fjárhagsyfirlit VMÍ 31.12. 1999.
Svo sem kunnugt er þá sér bókhaldsdeild Akureyrarbæjar um bókhald fyrir VMÍ, skv. ákvörðun í mars 1997.
Fundarmenn óskuðu að kannað yrði hvort möguleiki væri á því að bókhald VMÍ yrði með öðru fyrirkomulagi, en nú er hjá bókhaldsdeild Akureyrarbæjar, og það fært eins og um fjárhagslega sjálfstæða stofnun væri að ræða.

2. Á undanförnum árum hefur stjórn VMÍ unnið að framgangi vetraríþrótta fyrir fatlaða og í því sambandi lagt fé til kaupa á hjálpartækjum í því efni.

Lionsklúbburinn Hængur á Akureyri hefur í hyggju að kaupa inn tvenn skíði fyrir fötluð börn og leggur stjórn VMÍ til að Lionsmönnum verði lagt lið í þessu átaki.

Samþykkt að Stjórn VMÍ leggi fram kr. 400.000.- til kaupa á skíðum fyrir fötluð börn.

3. Stjórn VMÍ hefur á undanförnum mánuðum staðið að undirbúningi fyrir íþróttabraut við verkmenntaskólann á Akureyri þar sem áhersla verður lögð á hefðbundnar vetraríþróttir.

Kannaðir hafa verið möguleikar erlendis um kynningu fyrir flt. frá VMÍ á þessu sviði og hafa fengist jákvæð svör frá skólum í Noregi og Finlandi.

Í þessu framhaldi hefur þess verið farið á leit við íþróttakennara VMA, Hinrik Þórhallsson, að fara í þessa kynnisferð f.h. VMA og VMÍ og er hann tilbúinn til þess. Gert er ráð fyrir að Hinrik fari til Noregs 6. eða 7. febrúar 2000 og verði í tvær vikur í framhaldsskólum í Trondhjem, Onsdal, Tröndelag, Lillehammer og Oslo, þar sem hann kynnir sér skíðavalbrautir við þessa skóla, en verði síðan eina viku í Lahti í Finnlandi þar sem hann heimsækir skóla sem hefur upp á skautavalbraut að bjóða.

VMÍ mun annast kostnað við ferðalög og uppihald.Hinriks.

4. Í desember s.l. barst viðurkenning frá FIS alþjóðaskíðasambandinu um úttekt á göngubrautum í Hlíðarfjalli við Akureyri. Þetta eru 7.5 og 5.0 km. brautir sem eru nú eru löglegar fyrir alþjóðakeppni í göngu.

Jafnframt barst tilkynning frá FIS um úthlutun á alþjóðlegu göngumóti til Akureyrar sem fram á að fara 25. - 26. mars 2000. (Upphafl dags. 1.-2. apríl)

Í sambandi við mótahald á alþjóðlegu móti í göngu var upplýst að sérútbúin tímatökutæki sem þarf við slík mót sem þetta eru ekki til á Akureyri.

Stjórn VMÍ ákvað því að veita SRA kr. 350.000.- styrk til kaupa á slíkum tækjum, sem notuð verða við framkvæmd skíðagöngumóta á Akureyri.

5. Framkvæmdastjóri greindi frá Vetrraríþróttahátíð ÍSÍ sem fer fram á Akureyri 3. mars - 26. apríl 2000.
Eftirfarandi bókað: Stjórn VMÍ metur mikils það samstarf sem náðst hefur við Íþrótta og Ólympíusamband Íslands um Vetraríþróttahátíð ÍSÍ sem upphaflega var haldin á Akureyri árið 1970 og síðan á 10 ára fresti á sama stað.

Nú stendur fyrir dyrum að halda næstu Vetraríþróttahátíð ÍSÍ og fer hún fram í mars og apríl n.k. á Akureyri.

Vegna þessarar hátíðar hefur m.a. verið lögð áhersla á að ljúka byggingu Skautahallar á Akureyri og þjónustumiðstöðvar í Hlíiðarfjalli áður en hátíðin hefst. Fjölmargir koma að framkvæmd hennar, bæði einstaklingar, félög og stofnanir og það er von stjórnar VMÍ að framkvæmdaaðilar Vetraríþróttahátíðarinnar í samvinnu við Íþrótta og Ólympíusambands Íslands leggi sig fram um að þessi hátíð megi fara sem best úr garði og verði öllum henni viðkomandi til sóma.

6. Framkvæmdastjóra falið að kanna í samvinnu við stjórn Skíðasambands Íslands hvort æskilegt væri að gera skoðanakönnun meðal skólafólks í framhaldsskólum landsins um viðhorf þeirra til valbrautar við Verkmenntaskólann á Akureyri í vetraríþróttum. (Skíðavalbraut. Skautavalbraut.)

7. Rætt um undirbúning þann, sem hefur átt sér stað á Akureyri um byggingu kláfferju í Hlíðarfjalli. Nú er verið að setja á stofn vinnuhóp um þetta verkefni og óskað hefur verið eftir flt. frá stjórn VMÍ í hann.

Stjórn VMÍ tilnefnir Jóhann G. Sigurðsson, formann stjórnar VMÍ í vinnuhópinn.
 
8. Gefið var stutt yfirlit um stöðu byggingamála við Skautahöllina og Strýtu og fóru sumir fundarmanna í Hlíðarfjall að skoða nýbygginguna þar, eftir fundinn.

Fleira ekki fyrir tekið
Fundi slitið kl. 18.30