Fundur 25

Stjórn VMÍ: Fundur no. 25.
Ár 2000 mánudaginn 29. maí var fundur haldinn í stjórn VMÍ að Geislagötu 9 og hófst kl. 16.00

Mættir voru eftirtaldir stjórnarmenn: Jóhann G. Sigurðsson, Benedikt Geirsson, Þröstur Guðjónsson, Þórarins E. Sveinssonar og Margrét Baldvinsdóttir, sem mætti í forföllum Tómasar Inga Olrich, auk framkvæmdastj. stjórnar VMÍ Hermanns Sigtryggssonar.

Formaður, Jóhann G. Sigurðsson setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

Fyrir var tekið:

1.
Fyrir lá tillaga að fjárhagsáætlun stjórnar Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands fyrir árið 2001. Var hún samþykkt og framkvæmdastjóra falið að senda hana aðilum sem standa að VMÍ.

2.
Tekið fyrir bréf frá Hita og Vatnsveitu Akureyrar um vatnsöflun í Hlíðarfjalli með hliðsjón af framleiðslu á tilbúnum snjó í skíðabrekkur Skíðastaða. Framkvæmdastjóra falið að ræða nánar við Hita og Vatnsveitu Akureyrar og forráðamenn Skíðastaða um þetta mál.

3.
Nú mættu á fundinn Þórarinn B. Jónsson, formaður Íþrótta og tómstundaráðs og Eiríkur B. Björgvinsson, íþrótta og tómstundafulltrúi og erindi þeirra var að ræða sameiginleg mál ÍTA og VMÍ varðandi vetraríþróttir á Akureyri og samvinnu á því sviði.
Ma. var rætt um mannaráðningar í ljósi þess sem nú er að gerast í Hlíðarfjalli og VMÍ á næstunni.

4.
Viðar Sigurjónsson, starfsmaður ÍSÍ á Norður og Austurlandi, mætti á fundinn og gaf, ásamt meðnefndarmönnum sínum í framkvæmdastjórn Vetraríþróttahátið ÍSÍ, þeim Þresti Guðjónssyni og Hermanni Sigtryggssyni, skýrslu um Vetraríþróttahátíðina sem fram fór 3. mars til 26. apríl 2000.
Var framkvæmdaaðilum VH 2000 þökkuð störf að framkvæmd hátíðarinnar.

5.
Þá mætti á fundinn Hinrik Þórhallsson, íþróttakennari við VMA, og lagði hann fram skýrslu um kynningarferð sem hann fór til Norðurlanda á vegum VMA og VMÍ þar sem hann kynnti sér rekstur íþróttabrauta við framhaldsskóla.
Ferðin tók 3 vikur og alls heimsótti hann 4 framhaldsskóla í Noregi, einn í Svíþjóð og 1 í Finnlandi, sem allir voru með einhverjar greinar vetraríþrótta á sinni námsskrá.
Góður rómur var gerður af skýrslu Hinriks.
Var framkvæmdastjóra og Hinrik falið að koma á fundi skólanefndar VMÍ þar sem skýrslan yrði tekin fyrir og í framhaldi af því fundi með skólameistara VMA, þar sem honum yrði kynnt skýrsa Hinriks.

6.
Borist hefur bréf með tilnefningu ÍTA í nefnd sem ætlað er að vinna að skipulagi Hlíðarfjalls með tilliti til þess að þar verði starfsemi á vegum Skíðastaða bæði sumar og vetur. Einnig verði unnið að framtíðarskipulagi Akureyrar sem Vetraríþróttamiðstöðvar Islands.
ÍTA tilnefnir Þórarinn B. Jónsson í nefndina og Nóa Björnsson til vara.

Fleira ekki fyrir tekið
Fundi slitið kl. 18.30