Fundur 26

Stjórn VMÍ: Fundur no. 26.
Ár 2000 miðvikudaginn 12. júlí var fundur haldinn í stjórn VMÍ að Geislagötu 9 og hófst kl. 16.00

Mættir voru eftirtaldir stjórnarmenn: Jóhann G. Sigurðsson, Tómas Ingi Olrich, Þröstur Guðjónsson, Þórarins E. Sveinssonar og Ellert B. Schram, sem mætti í forföllum Benedikts Geirssonar, auk framkvæmdastj. stjórnar VMÍ Hermanns Sigtryggssonar.

Formaður, Jóhann G. Sigurðsson setti fund, bauð fundarmenn velkomna og greindi frá dagskrá fundarins.

Fyrir var tekið:

1. Þröstur Guðjónsson gerði grein fyrir fundi skólanefndar VMÍ með skólameistara verkmenntaskólans á Akureyri, Hjalta Jóni Sveinssyni, þar sem rætt var um vetraríþróttabraut við VMA.
Niðurstöður þess fundar voru að skólameistari VMA mun leggja til á fundi í menntamálaráðuneytinu í haust að skólinn taki upp bóklega kennslu í VMA í hefðbundnum vetraríþróttum haustið 2001 og fái til þess fé, gegn því að aðilar sem standa að Vetraríþróttamiðstöð Íslands útvegi rekstrarfé og aðstöðu til starfsemi brautarinnar utan skólans, þ.e. kennslu og þjálfunar nemenda í verklegum greinum skíða og skautaíþrótta.

Stjórn VMÍ er hlynnt því að við Verkmenntaskólann verði sett á stofn námsbraut í hefðbundnum greinum vetraríþrótta.
Stjórnin mun vinna að því að samningar náist um aðstöðu og fjárveitingu til brautarinnar varðandi verklegan þátt hennar og í því efni leita til þeirra aðila er mál þetta varðar.
Stjórn VMÍ telur eðlilegt að öll yfirstjórn (bókl. og verkl.) væntanlegrar námsbrautar verði á hendi Verkmenntaskólans á Akureyri.

2. Fyrir lá fyrsta fundargerð nefndar sem stofnað var til af stjórn VMÍ til að vinna að skipulagi Hlíðarfjalls með tilliti til þess að þar verði starfsemi á vegum Skíðastaða bæði sumar og vetur. Einnig verði unnið að framtíðarskipulagi Akureyrar sem Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands.
Nokkrar umræður urðu um skipulagsmál í Hlíðarfjalli og almennt um skipulagsmál á Akureyri í tengslum við VMÍ og rekstur þeirra mannvirkja sem sinna hefðbundnum vetraríþróttum.
Fyrirspurn kom fram um gang mála við byggingu kláfferju í Hlíðarfjalli og svaraði Jóhann því til að beðið væri eftir nákvæmari arðsemisútreikningum og vettvangsteikningum.
Fyrir fundinum lágu skýrslur frá Veðurstofu Íslands um vindmælingar á Hlíðarfjalli gerðar af. Flosa Hrafni Sigurðssyni, Hreini Hjartarsyni og Torfa Karli Antonssyni. Mælingar byggjast á upplýsingum frá sjálfvirkri veðurstöð sem staðsett er á brún Hlíðarfjalls sv Reythóla.
Einnig lá fyrir umsögn og skýrsla frá Tómasi Jóhannessyni um bráðabirgðahættumat á snjóflóðum í sambandi við byggingu svifbrautar í Hlíðarfjalli.
Í þeirri umsögn kemur fram að Veðurstofan geri ekki athugasemdir í sambandi við fyrirhugaða staðsetningu endastöðva eða mastra svifbrautarinnar.

Borist hefur bréf frá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar dags. 29. júní, þar sem stofnunin tilnefnir Hólmar Svansson í framangreinda nefnd og Ómar Banine til vara. Nefndina skipa því:

  •     Jóhann G. Sigurðsson frá stjórn Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands
  •     Þórarinn B. Jónsson frá Íþrótta og tómstundaráði Akureyrarbæjar
  •     Hólmar Svansson frá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar.

3. Lagt fram reikningsyfirlit yfir Vetraríþróttahátíð ÍSÍ 2000, sem haldin var á Akureyri í mars og apríl s.l.
Standa reikningar vel og gert er ráð fyrir að endanlegt uppgjör liggi fyrir um næstu mánaðarmót.

4. Framkvæmdastjóra falið að ganga frá endanlegum tillögum um fána, bréfsefni og merkingar fyrir Vetraríþróttamiðstöð Íslands.

Fleira ekki fyrir tekið
Fundi slitið kl. 17.30