Fundur 5

Stjórn VMÍ: Fundur nr. 5
Ár 1996 mánudaginn 16. des var fundur haldinn í stjórn Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands að Geislagötu 9 og hófst hann kl. 18.00.

Mættir voru eftirtaldir stjórnarmenn: Þórarinn E. Sveinsson, Steingrímur Birgisson, Benedikt Geirsson og Margrét Baldvinsdóttir auk Hermanns Sigtryggssonar framkvæmdastjóra stjórnarinnar. Þröstur Guðjónsson boðaði forföll v. veikinda og varamaður hans Jón Björnsson var utanbæjar.

Þetta gerðist:

1.
Rætt um drög að samkomulagi milli menntamálaráðuneytisins og Akureyrarbæjar um fjárframlög vegna reksturs og uppbyggingar Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands, sbr. reglugerð nr. 362/1995 um Vetraríþróttamiðstöð Íslands.

Meðan á þessum umræðum stóð var höfð opin símalína milli fundarmanna og Tómasar Inga Olrich, sem staddur er í París og tók Tómas þátt í umræðunni þaðan.

Varðandi uppbyggingu mannvirkja v. Vetraríþróttamiðstöðvarinnar kom fram að ennþá er ósamið um hlutdeild samningsaðila þ.a.l. og ekki vilji af hálfu samningamanna ríkis um jöfn skipti á þessum vettvangi, en rekstrarkostnaður v. starfsemi stjórnar Vetraríþróttamiðstöðvarinnar skiptist að jöfnu milli menntamálaráðuneytisins og Akureyrarbæjar. Í samningum er gerður sá fyrirvari að fjárveitingar hafi fengist á fjárlögum til þessa verkefnis.

Tómas Ingi upplýsti að hann hefði átt viðræður við forsætisráðherra, menntamálaráðherra og fjármálaráðherra um framlög ríkisins til Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands á tímabilinu 1998 - 2002. Hefðu ráðherrar heitið að beita sér fyrir framlögum, sem væru í samræmi við þau markmið, sem stjórn VMÍ hefði sett sér, þegar hún fól varaformanni stjórnar að ganga til viðræðna við ríkisvaldið. Menntamálaráðherra hefði hins vegar talið að áður en málið yrði borið upp í ríkisstjórn, yrðu að liggja fyrir upplýsingar um hvernig framlögum Akureyrarbæjar yrði háttað á þessu tímabili svo og skuldbindingar þar að lútandi, enda hefði verið gert ráð fyrir því við undirbúning málsins að bærinn hefði á sinni hendi frumkvæði að áframhaldandi uppbyggingu vetraríþróttamannvirkja á Akureyri eftir stofnun VMÍ.

Tómas Ingi benti á að brýnt væri að slík ákvörðun væri tekin hið fyrsta af bæjarstjórn Akureyrar. Mætti gera ráð fyrir að ef hún lægi fyrir í byrjun árs 1997, væri hægt að undirrita samning um málið fyrir janúarlok.

2.
Fjárhagsáætlun stjórnar VMÍ fyrir árið 1997 lögð fram. Rekstrargjöld eru samtals. kr. 3.173.00. Fundarmenn samþykktu áætlunina fyrir sitt leyti.

3.
Skíðavalgrein við skóla á Akureyri: Benedikt Geirsson lýsti áhuga sínum á því að stofnsett yrði skíðavalgrein við framhaldsskóla á Akureyri. Rakti hann í stórum dráttum stöðu þessa máls frá því að skíðavalgrein var stofnuð við menntaskólann á Ísafirði og þar til hún var lögð þar niður í fyrra. Taldi hann að áhugi væri fyrir því innan Skíðasambands Íslands að þessi starfsemi félli ekki niður og taldi æskilegt að þess yrði farið á leit við skólayfirvöld að koma á skíðavalgrein við framhaldsskóla á Akureyri.

Fundarmenn tóku vel hugmyndum Benedikts og var honum falið að kanna hug stjórnar SKÍ og senda VMÍ erindi um þetta mál ef jákvæð niðurstaða verður um það innan stjórnar sambandsins.

4.
Rætt um námskeiðs og ráðstefnuhald á vegum VMÍ á næsta ári. Framkvæmdastjóra og Benedikt Geirssyni falið að kanna grundvöll fyrir samvinnu SKÍ og VMÍ á þessum vettvangi.

5.
Leitast verði við að koma á föstum fundartíma stjórnar VMÍ. Formanni og framkv.stj. falið að leggja fram fundarplan til vors í byrjun janúar.

6.
Lagðar fram til sýnis teikningar og tillögur að skýli yfir skautasvell Skautafélags Akureyrar.

7.
Framkvæmdastjóri gaf upplýsingar um veðurathugunarstöð sem búið er að setja upp á Hlíðarfjall.

Þá greindi hann frá ferð á sýningu um vetraríþróttavörur og tæki sem haldin var í Austurríki í oktober s.l.

Á sl. hausti var í ráði að gera tilraunum með snjógerðarvél sem var í vörslu Jóns Halldórssonar á Dalvík. Vegna snjókomu og slæmra veðurskilyrða var ekki hægt að undirbúa þessa tilraun svo hún verður að bíða betri tíma. Í þessu sambandi var sótt um styrk til verkefnasjóðs ÍSÍ á sl. hausti og skv. bréfi dags. 9. des. frá ÍSÍ sem lá fyrir fundinum í dag voru veittar kr. 350.000 til verksins af hálfu verkefnasjóðsins. Vegna frestunar tilraunarinnar og ákveðinna skilyrða með lánveitingunni var framkvæmdastjóra falið að tala við Stefán Konráðsson framkv.stj. ÍSÍ um frestun þessa máls, en taka það upp síðar ef verkinu verður haldið áfram.

Fleira ekki fyrir tekið