Fundur 6

Stjórn VMÍ: Fundur nr. 6
Ár 1997 þriðjudaginn 21 janúar var fundur haldinn í stjórn Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands að Geislagötu 9 og hófst hann kl. 09.00.

Mættir voru eftirtaldir stjórnarmenn: Þórarinn E. Sveinsson, Tómas Ingi Olrich, Steingrímur Birgisson, Benedikt Geirsson og Þröstur Guðjónsson auk Hermanns Sigtryggssonar framkvæmdastjóra stjórnarinnar.

Á fundinn mættu Kristján Eldjárn Jóhannesson, formaður Skautafélags Akureyrar , sem sat allan fundinn og Jakob Björnsson sem kom inn á fundinn kl. 10.30.

Þetta gerðist:

1.
Fundartímar VMÍ til vors ákveðnir sem hér segir:

Laugardagur 8. mars kl. 10.00 að Geislagötu 9 Akureyri.

Föstudagur 11. apríl kl. 14.00 í Bláfjallaskála, Reykjavík.

Laugardagur 10. maí kl. 10.00 að Geislagötu 9 Akureyri.

Fundarboð og gögn verða send aðal og varamönnum. Varamenn boðaðir símleiðis ef óskað er eftir að þeir mæti.

2.
Lagt fram bréf frá Skíðasambandi Íslands þar sem þess er farið á leit við stjórn VMÍ að hún skipi nefnd sem starfi að undirbúningi hugsanlegrar skíðabrautar við Verkmenntaskólann á Akureyri.

Samþykkt að setja á stofn nefnd sem skipuð yrði flt. frá stjórn SKÍ ,VMÍ, og VMA.

Eftirtaldir skipaðir í nefndina: Frá stjórn VMÍ Þröstur Guðjónsson, frá Skíðasambandi Íslands Kristinn Svanbergsson og frá Verkmenntaskólanum á Akureyri Hinrik Þórhallsson. Starfsmaður nefndarinnar verði Hermann Sigtryggsson.

3.
Kristján E. Jóhannesson lagði fram teikningu að yfirbyggingu skautasvells Skautafélags Akureyrar. Fyrirhuguð bygging er stálgrindarhús 38 x 68 m. með 4" einangrun. Klætt með lituðu stáli. Mikil undirbúningsvinna hefur verið unnin af hálfu Skautafélags Akureyrar á undanförnum árum vegna þessa húss, m.a. leitað tilboða í heppilega gerð húsa, fjármögnunarleiðir kannaðar osfrv.

Kristján svaraði fyrirspurnum og gat þess að ef vel gengi með fjármögnun og samninga við opinbera aðila þá væri hugsanlega hægt að koma upp byggingunni (óinnréttaðri) næsta haust. Fyrstu árin yrði notast við þá búningsklefa sem til væru, en geta mætti þess að þeir væru mjög lélegir og þar er engin baðaðstaða. En það sem mestu máli skipti væri að fá yfirbyggingu yfir skautasvellið svo hægt væri að nýta það óháð veðri og vindum.

Ráðist yrði í næstu áfanga eftir tvö til þrjú ár og þá yrði húsið og önnur aðstaða innanhúss fullkláruð.

Jakob Björnsson bæjarstjóri tók þátt í umræðum undir þessum lið.

Lagt var á ráðin með næstu skref í þessu máli og Skautafélagi Akureyrar heitið þeim stuðningi sem mögulegur væri við þetta stóra framtak félagsins.

4.
Jakob Björnsson, bæjarstjóri greindi frá samskiptum milli ríkis og bæjar um fjárframlög þessara aðila til Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands, hvar málið væri á vegi statt og væntanlega samninga þar að lútandi. Gert er ráð fyrir að á árunum 1998 - 2002 leggi ríki fram kr. 50.000.000.- og Akureyrarbær kr. 100.000.000.- til uppbyggingar vegna aðstöðu fyrir vetraríþróttir á Akureyri.

5.
Tómas Ingi Olrich vakti máls á starfi fatlaðra að vetraríþróttum og hvatti til samstarfs milli Íþróttasamband Fatlaðra og VMÍ svo og annarra aðila sem störfuðu að málefnum fatlaðs fólks.

Tómasi og Benedikt Geirssyni falið að hafa samband við viðkomandi aðila v. þessa máls.

6.
Þórarinn E. Sveinsson vísaði til reglugerðar VMÍ , þar sem í II kafla 2. grein er Vetraríþróttamiðstöðinni ætlað að hvetja til aukinnar þátttöku í vetraríþróttum jafnt fyrir almenning sem keppnisfólk auk þess sem þar er lögð áhersla á fræðsluþátt VMÍ um þessi mál.

Framkvæmdastjóra falið að gera áætlun um hvernig vinna skal að þessum málum í næstu framtíð.

7.
Rætt um gerð fjárhagsáætlunar VMÍ fyrir árið 1998, en vegna fjárlaga Alþingis þurfa tillögur því viðkomandi að berast fjárveitinganefnd með góðum fyrirvara.

Framkvæmdastjóra falið að leggja tillögur fyrir stjórn VMÍ á næsta fundi.

8.
Borist hefur tilkynning frá Íþróttabandalagi Akureyrar um að í stað Jóns Björnssonar sem verið hefur varamaður í stjórn VMÍ komi Kristján Eldjárn Jóhannesson, Aðalstræti 80 B, Akureyri. Kristján verður í varastjórn VMÍ frá og með 21. janúar 1997.

Fleira ekki fyrir tekið
Fundi slitið kl. 11.40