Fundur 7

Stjórn VMÍ: Fundur nr. 7
Ár 1997 föstudaginn 14. mars var fundur haldinn í stjórn Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands að Geislagötu 9 og hófst hann kl. 09.00.

Mættir voru eftirtaldir stjórnarmenn: Þórarinn E. Sveinsson, Tómas Ingi Olrich, Ellert B. Schram, Þröstur Guðjónsson og Logi Már Einarsson auk Hermanns Sigtryggssonar framkvæmdastjóra stjórnarinnar.

Á fundinn mættu, að fullu eða að hluta, auk stjórnarmanna Jakob Björnsson, bæjarstjóri, Eiríkur B. Björgvinsson, íþrótta og tómstundafulltrúi Akureyrar, Kristján Eldjárn Jóhannesson, formaður Skautafélags Akureyrar, Magnús Finnsson, formaður Skautasambands Íslands, Árni Ólafsson, skipulagsstjóri Akureyrar og Ívar Sigmundsson, forstöðumaður Skíðastaða.

Þetta gerðist:

Formaður kynnti gesti, greindi frá í hvaða tilgangi þeir væru á þessum fundi og bauð þá jafnframt velkomna. Gaf hann síðan Magnúsi Finnssyni orðið.

Magnús gaf ýmsar upplýsingar um Skautasamband Íslands, hvað þar væri nú efst á baugi og svaraði fyrirspurnum þal.

Hann ræddi m.a. þann möguleika að á Akureyri færi fram alþjóðamót í skautaíþróttum þegar byggt hefði verið yfir skautasvellið. Sagði hann að alþjóða skautasambandið styrkti óbeint lönd sem væru að byrja á þessum vettvangi.

Þá ræddi hann um samskipti sambandsins við stjórn VMÍ að málefnum skautaíþróttarinnar og að vilji væri fyrir samvinnu um fræðslu og námskeiðahald. Vænti hann góðs samstarfs við VMÍ í framtíðinni.

Næstur tók til máls Kristján Eldjárn, formaður Skautafélags Akureyrar. Hann lagði fram hugmyndir að byggingu skautahúss, yfirbyggingu yfir núverandi skautasvell, þar sem um tvær leiðir er að ræða.

Í fyrsta lagi hús 38x68 m.með 4. m. vegghæð og rými fyrir 1-200 áhorfendur. Kostnaðaráætlun við fyrsta áfanga fyrir slíkt hús er kr. 33 millj. plús áætl. byggingargjöld kr. 9 millj. Hér er um að ræða skýli yfir skautasvellið án framkvæmda við þjónusturými, rafmagn, loftræstingu eða hita.

Í öðru lagi hús 38x72 m. með 5.1 m. vegghæð og rými fyrir 5-600 áhorfendur. Kostnaðaráætlun við fyrsta áfanga fyrir slíkt hús er 44 millj. plús byggingargjöld sem eru áætluð 10 millj. Annar áfangi er bygging 350 fm. þjónusturýmis í norðurenda hússins og er gróf kostnaðaráætlun fyrir þann áfanga 24 millj. þriðji áfangi er loftræsting og lýsing fyrir 6 milljónir. Fjórði áfangi er stækkun á svelli í 30x60 m. Gróf kostnaðaráætlun fyrir þann áfanga eru 9 milljónir króna.

Miklar umræður urðu á fundinum um byggingu yfir skautasvellið. Árni Ólafsson skipulagsstjóri Akureyrarbæjar upplýsti að gert væri ráð fyrir svæði skautafélags í deiliskipulagi Innbæjarins og Fjörunnar.

Tómas Ingi Olrich taldi rétt að í umræðum um yfirbyggingu skautasvells SA yrðu aðrar staðsetningar fyrir skautasvell kannaðar í bæjarlandinu, benti m.a. á svæði í kring um Íþróttahöllina og möguleika sem þar gæfust til samnýtingar á íþróttamannvirkjum.

Þá taldi hann að ef svellið væri meira miðsvæðis en það er nú væri það rekstrarlega hagkvæmara. Lagði hann til að frumathugun á öðrum staðsetningarmöguleikum færi fram og henni yrði hraðað.

Eftir nokkrar umræður um þetta mál þar sem fundarmenn lögðust ekki á móti því að þetta yrði kannað, var íþrótta og tómstundafulltrúa og skipulagsstjóra falið að semja greinargerð um staðarval, til stjórnar VMÍ, og hversu hagkvæmt væri að flytja skautasvellið á svæði sundlaugar Akureyrar og Íþróttahallarinnar.

Þórarinn E. Sveinsson form stj. VMÍ þakkaði skautamönnum fyrir komuna á fundinn og upplýsingar sem þeir gáfu og véku þeir síðan af fundi kl. 10.30.

Rætt var um samstarfs og byggingarsamning milli SA og Akureyrarbæjar og er stj. VMÍ samþykk því fyrir sitt leyti að unnið verði áfram að gerð slíks samnings. Verði því hraðað sem kostur er. Vill stjórn VMÍ gjarnan fá samninginn til yfirlestrar á seinni stigum.

Formaður lagði fram til kynningar samkomulag milli Menntamálaráðuneytisins og Akureyrarbæjar um fjárframlög til reksturs og uppbyggingar Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands á Akureyri á árunum 1998 - 2002. Samkomulagið, sem er dagsett 23. febrúar 1997, er staðfest af fjármálaráðherra.

Jakob Björnsson, bæjarstjóri, greindi frá aðdraganda að þessu samkomulagi og heimsókn Björns Bjarnasonar menntamálaráðherra til Akureyrar til þess að undirrita það. Í tilefni af þessum fundi bauð bæjarstjórn ráðherra og nokkrum gestum til hádegisverðar að Hótel KEA, en síðan var farið í Hlíðarfjall, á skautasvæði Skautafélags Akureyrar og í Kjarnaskóg.

Fundarmenn létu í ljós ánægju sína með þetta samkomulag.

Ellert B. Schram spurðist fyrir um hvort það væri rétt skilið að Akureyrarbær myndi greiða sérstaklega vexti og lántökukostnað ef framkvæmdir yrðu fjármagnaðar með lántökum áður en greiðslur Akureyrarbæjar og menntamálaráðuneytisins berast samkv.framangreindu samkomulagi. Bæjarstjóri staðesti þann skilning

Samþykkt að óska eftir því við bæjarstjórn Akureyrar að bæjarskrifstofan annist bókhald og fjárreiður fyrir Vetraríþróttamiðstöð Íslands. Framkvæmdastjóra falið að vinna að málinu.

Lagt fram til kynningar greinargerð um fræðslumál, námskeiða og ráðstefnuhald á vegum VMÍ á þessu ári.

Þröstur Guðjónsson benti á að athuga þyrfti vel hver staða VMÍ sé í fræðslumálum hvað varðaði frumkvæði VMÍ í þessum málum og að ekki verði gengið á rétt Skíðasambandsins og Skautasambandsins, en kanna hins vegar samstarf um þessi mál við framangreind sérsambönd ÍSÍ.

Lagðar fram 3 fundargerðir skíðabrautarnefndar VMÍ ásamt námsskrá fyrir skíðabraut við Verkmenntaskólann á Akureyri.

Samþykkt tillaga nefndarinnar um að Margrét Baldvinsdóttir taki sæti í nefndinn af hálfu VMÍ.

Lögð fram skýrsla frá Hallgrími Indriðasyni um íþróttaaðstöðu í Kjarnaskógi.

Lagt fram reiknisyfirlit yfir árið 1996 svo og fyrstu drög að fjárhagsáætlun fyrir VMÍ fyrir árið 1998. Afgreiðslu frestað.

Á fundinn mætti nú kl. 11.00 Ívar Sigmundsson, forstöðumaður Skíðastaða. Sýndi hann á kortum hvar unnið hefur verið að jarðvegsbótum fyrir skíðabrautir og brekkur í Hlíðarfjalli á undanförnum árum og hvað væri fyrirhugað í þeim efnum á næstunni. Þá lagði hann fram teikningar af Skíðahótelinu og útskýrði í hverju breytingar væru fólgnar sem þar koma fram.

Árni Ólafsson, skipulagsstjóri greindi frá hvað gera þyrfti í skipulagsmálum fjallsins áður en lengra er haldið í byggingarmálum þar.

Ellert Schram undraðist nokkuð að ekki lægi fyrir forgangsröðun verkefna í fjallinu nú þegar eitthvað væri að rætast úr með peninga til uppbyggingar, né endanlegar teikningar af fyrirhuguðum mannvirkjum.

Að loknum fjörugum umræðum var skipulagsstjóra og íþrótta og tómstundafulltrúa falið að koma með tillögur til VMÍ um framgang skipulagsmála í fjallinu, svo og kanna hvernig mál standa með að gera Glerárdal að fólkvangi.

Form. Þórarinn E. Sveinsson lagði til að gerð yrði framkvæmdaáætlun fyrir Hlíðarfjall og skautasvæði SA í samvinnu við hlutaðeigandi aðila þar sem verkefni yrðu sett í forgangsröð. Áætlunartímabil miðist við 1997 - 2002.

Miklar umræður urðu um málið og í framhaldi af þeim var formanni og framkvstj. falið að leggja fyrir næsta fund tillögur að framkvæmdaáætlun fyrir uppbyggingu vetraríþróttammannvirkja á Akureyri, ásamt greinargerðum, er miðist við fjárframlög til þessara mála af hálfu ríkis og bæjar.

Fleira ekki fyrir tekið.
Fundi slitið kl. 12.15.