Fundur 8

Stjórn VMÍ: Fundur nr. 8
Ár 1997 föstudaginn 11. apríl var fundur haldinn í stjórn Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands í Skíðaskálanum í Hveradölum og hófst hann kl. 13.30.

Mættir voru eftirtaldir stjórnarmenn: Þórarinn E. Sveinsson, Tómas Ingi Olrich, Þröstur Guðjónsson, Benedikt Geirsson, Steingrímur Birgisson auk framkvæmdastj. stjórnar VMÍ Hermanns Sigtryggssonar.

Tilefni þess að fundurinn er haldinn sunnan heiða er, samkvæmt því sem áður hefur verið talað um á stjórnarfundum, að heimsækja sunnanmenn í stjórninni svo og skoða vetraríþróttamannvirki í Reykjavík og nágrenni.

Fram að þessum fundi hefur dagskrá stjórnarmanna verið sem hér segir: Stjórnarmenn frá Akureyri Þórarinn og Steingrímur auk Hermanns komu með flugi til Reykjavíkur kl. 10.00. Þar var til staðar bílaleigubíll og tók Steingrímur við stjórn hans. Þröstur kom í hópinn á flugvellinum og Tómas var sóttur í Alþingi og þaðan var haldið í Bláfjöll. Þar tók á móti hópnum Þorsteinn Hjaltason, forstöðumaður skíðastaða Bláfjallanefndar. Sýndi hann stjórnarmönnum Bláfjallaskálann, þar sem þegnar voru veitingar, stólalyftuna í Kóngsgili og áhaldahús staðarins ásamt tækjum. Einnig var keyrt að Ármannsskálanum og skála Breiðabliks. Skyggni var ekki gott og lítið sást af brekkum og lyftum Bláfjallamanna.

Kl.12.30 var ekið hingað í Skíðaskálann í Hveradölum. Hér bættist í hópinn Benedikt Geirsson, en hann var upptekinn í morgun og gat ekki komið með í Bláfjöll. Þá hafði Ellert Schram ekki tök á að koma á þennan fund vegna anna.

Að loknum hádegisverði var gengið til dagskrár á fundinum.

Fyrir var tekið:

Málefni Skautafélags Akureyrar og Skíðastaða.

Undir þessum lið voru lögð fram drög að samningi um samstarf milli Akureyrarbæjar og Skautafélags Akureyrar sem tekur til yfirbyggingar yfir skautasvell SA á Krókeyri , en þessi samningsdrög hafa einnig verið lögð fram í Íþrótta og tómstundaráði Akureyrar og bæjarráði Akureyrar, svo og tillögur forstöðumanns Skíðastaða um forgangsröðun verkefna í Hlíðarfjalli 1998 - 2000.

Þá var lögð fram greinargerð skipulagsstjóra Akureyrar og íþrótta og tómstundafulltrúa Akureyrar um staðsetningu skautasvells, s.b.r. umræður á síðasta fundi.

Að lokum voru lögð fram drög að að skiptingu kostnaðar milli ára, við uppbyggingu mannvirkja fyrir vetraríþróttir á Akureyri, miðað við væntanleg fjárframlög af hálfu ríkis og bæjar 1997 - 2002.

Nokkrar umræður urðu um framlögð gögn.

Afgreiðslu frestað.

Framkvæmdastjóra falið að senda bréf með upplýsingum um áfallinn kostnað vegna reksturs VMÍ 1996 og 1997 til stjórnarmanna VMÍ.

Einnig senda Menntamálaráðuneytinu samskonar yfirlit ásamt rekstraráætlun stjórnar VMÍ fyrir árið 1998. (Örlygur Geirsson)

Að loknum umræðum var farið yfir dagskrána sem framundan er hér fyrir sunnan en hún er í stórum dráttum sem hér segir:

Kl. 15.00 Ekið að Íþróttamiðstöðinni í Laugardal þar sem aðstaða Íþróttasambands Íslands, Skautasambands Íslands og Skíðasambands Íslands verður skoðuð. Þar munu annast móttökur Ellert Schram forseti ÍSÍ, Magnús Finnsson formaður Skautasambandsins og Benedikt Geirsson form. Skíðasambandsins.

kl. 16.30 Fundur með Ómari Einarssyni, framkvæmdastjóra íþrótta og tómstundaráðs Reykjavíkur, þar sem hann mun ræða um væntanlegar framkvæmdir við skautasvellið í Laugardal í sumar.

Á þessum fundi bætist í hópinn Eiríkur B. Björgvinsson íþrótta og tómstundafulltrúi Akureyrar.

Kl. 17.00 verður skautasvellið í Laugardal skoðað.

Heimferð til Akureyrar er áætluð kl. 19.45.

Fleira ekki tekið fyrir
Fundi slitið kl.15.00